Tveggja ára fangelsi fyrir nauðgun

Samkvæmt dóminum nauðgaði maðurinn konu eftir að hún hafði haldið …
Samkvæmt dóminum nauðgaði maðurinn konu eftir að hún hafði haldið upp á afmæli sitt kvöldið áður. Ákærði og konan þekktust ekkert fyrir kvöldið. mbl.is

Tuttugu og eins árs gamall karlmaður var fyrir rúmlega viku síðan dæmdur í Héraðsdómi Norðurlands vestra í tveggja ára fangelsi og til greiðslu einnar milljónar í skaðabætur vegna nauðgunar sem átti sér stað í byrjun sumars.

Samkvæmt dóminum nauðgaði maðurinn konu eftir að hún hafði haldið upp á afmæli sitt kvöldið áður. Fóru gestir veislunnar á dansleik áður en nokkrir komu til baka í heimahús þar sem ákærði fékk að gista ásamt öðrum gesti. Ákærði og konan þekktust ekkert fyrir kvöldið.

Sakfelling í málinu byggir meðal annars á framburði konunnar, en í dóminum segir að hann hafi verið staðfastur og þá hafi viðbrögð hennar beint eftir atvikið og samskipti bent til að nauðgun hafi átt sér stað. Framburður vitna bendi einnig eindregið til þess að konan hafi verið allnokkuð undir áhrifum áfengis og þar með ekki getað spornað við verknaðinum.

Þá kemur fram í dómnum að konan sé samkynhneigð og það vegi þungt í mati á framburði hennar og ákærða. Segir í dómnum að það dragi úr trúverðugleika ákærða, enda lýsi hann því þannig að hann hafi aðeins bankað á hurð konunnar þar sem hún svaf og í framhaldi þess að hann kom inn í herbergið hafi þau fljótlega hafið samfarir.

Maðurinn hefur ekki áður sætt refsingu. Er tekið mið af því við ákvörðun refsingar. Á móti þykir brot hans alvarlegt. Var manninum gert að greiða allan sakarkostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert