„Þolinmæðin er á þrotum“

Næsti fundur í kjaradeilu kennara verður á morgun.
Næsti fundur í kjaradeilu kennara verður á morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það tekur óneitanlega á að vera í kjaradeilu. Auðvitað viljum við ekki gera þetta en staðan er þröng sem við erum í. Við viljum fyrst og fremst sýna samstöðu, ræða málin og virkja kraftinn sem við búum yfir,“ segir Erla Súsanna Þórisdóttir, trúnaðarmaður kennara í Háteigsskóla, um samstöðufund sem grunnskólakennarar hafa boða til í dag kl. 15 í Háskólabíó.

Kennarar eru hvattir til að ganga út úr skólum kl. 14.30 en fyrst verður öryggis barna gætt. Í flestum skólum er kennslu á miðstigi lokið á þessum tíma. Á samstöðufundinum halda þrír kennarar ræðu og að því loknu munu kennarar ganga yfir í Hagaskóla þar sem borgarstjórnarfundur er haldinn og vekja athygli á kjarabaráttu sinni.

Í síðustu viku afhentu kennarar borgarstjóranum, Degi B. Eggertssyni, áskorun þess efnis að bregðast verði við þeim vanda sem steðjar að kennarastéttinni og allri þjóðinni ef ekkert verður að gert. Yfir 3.000 kennara um allt land skrifuðu undir en í kringum 4.300 starfandi grunnskólakennarar eru á landinu öllu.

Erla Súsanna Þórisdóttir trúnaðarmaður kennara í Háteigsskóla.
Erla Súsanna Þórisdóttir trúnaðarmaður kennara í Háteigsskóla.

Að sögn Erlu Súsönnu mæltist það ekki vel fyrir á meðal grunnskólakennara að borgarstjóri minntist ekki einu orði á undirskriftalistann í síðasta vikupistli sínum sem sendur er til allra starfsmanna borgarinnar. 

Frétt mbl.is: „Nýir kenn­ar­ar fást ekki til starfa“

Erla Súsanna bendir á að með samstöðufundinum og að mæta í Hagaskóla á borgarstjórnarfund haldi kennarar áfram aðgerðum sínum sem hófust í síðustu viku með umræddri áskorun til borgarstjóra.

Fyrsta fund­i í kjara­deilu Fé­lags grunn­skóla­kenn­ara og Sam­bands sveit­ar­fé­laga hjá rík­is­sátta­semj­ara lauk í gær. Hann var tíðindalítill enda fyrsti fundur deiluaðila með ríkissáttasemjara. Næsti fundur verður á morgun. Fyr­ir viku vísaði samn­inga­nefnd Fé­lags grunn­skóla­kenn­ara deil­unni  til rík­is­sátta­semj­ara.

Frétt mbl.is: Und­ir­bún­ings­fund­ur í kenn­ara­deilu

„Þolinmæðin er á þrotum. Kennarar tala um uppsagnir frekar en verkfall. Verkfall hefur aldrei skilað okkur neinu,” segir Erla Súsanna. Hún segist finna fyrir mikilli ólgu meðal kennara og er fullviss um að kennarar muni skila inn uppsögnum sínum ef ekkert gengur í kjaradeilunni. „Kennarar eru að bíða og sjá hvað gerist í samningaviðræðunum. Það er nýr kafli núna eftir að málið fór til ríkissáttasemjara.“ 

Erla Súsanna er bjartsýn á að samstöðufundurinn verði vel sóttur.  „Ég er kennari til 10 ára og hef aldrei farið í verkfall en mér finnst samstaða kennara góð og meðbyr með okkur í samfélaginu meiri en verið hefur.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka