Hópuppsagnir meðal annars ræddar

Frá afhendingu áskorunarinnar í dag.
Frá afhendingu áskorunarinnar í dag. Ljósmynd/Mosfellingur/Hilmar

Kennarar í Mosfellsbæ gengu til fundar við bæjarstjóra Mosfellsbæjar upp úr þrjú í dag og afhentu bæjarstjórninni áskorun sem undirrituð er af  kennurum allra skóla bæjarins, en tveir af stærstu skólum landsins eru í Mosfellsbæ.

 „Úrskurður kjararáðs var kornið sem fyllti mælinn,“ segir Hanna Valdís Guðjónsdóttir, kennari í Varmárskóla í Mosfellsbæ og kveður kennara hafi misst þolinmæði gagnvart kjaraviðræðum.  

„Óháð því hvort úrskurður kjararáðs verði dreginn til baka, þá förum við fram á að laun grunnskólakennara verði leiðrétt, rétt eins og laun þingmanna.“ Hún bætir við að kennsla sé ekki síður mikilvægt starf, enda beri kennarar ábyrgð á komandi kynslóðum.

Hljóðið í kennurum er þungt þessa dagana og segir Hanna Valdís hópuppsagnir m.a. hafa verið ræddar, þó að ekkert liggi fyrir í þeim efnum.

„Það eru allir eiginlega gráti næst, þetta er svo sorglegt,“ segir Hanna Valdís og þekkir til fjölmargra kennara sem stunda aukavinnu utan kennslunnar til að drýgja tekjur sínar. „Það er sorglegt að kennarar geti ekki lifað af laununum sínum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert