Sterkt gengi ekki skilað sér til neytenda

mbl.is/Arnaldur Halldórsson

Sterkt gengi krónunnar undanfarin misseri hefur skilað sér illa til neytenda í lægra vöruverði á mörgum innfluttum vörum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Alþýðusambandi Íslands (ASÍ). Þannig hafi gengi krónunnar styrkst um 12% frá því í október 2015 og um 18% á undanförnum tveimur árum. Þetta hafi þýtt að hagkvæmara hafi verið fyrir neytendur á Íslandi að versla vörur í útlöndum og eins fyrir fyrirtæki að flytja inn vörur.

Hins vegar virðist gengisstyrkingin hafa skilað sér með misjöfnum hætti til neytenda sé horft til þróunar á verðlagi í undirvísitölum neysluverðs samkvæmt mælingum Hagstofunnar síðustu tvö ár að sögn ASÍ. Dæmi séu þannig um að innfluttar vörur hafi hækkað eða lækkað lítið í verði þrátt fyrir umtalsverða styrkingu krónunnar. Þess utan hafi almennur virðisaukaskattur verið lækkaður úr 25,5% í 24% í upphafi síðasta árs og vörugjödl afnumin af ýmsum vörum. Þá hafi tollar verið afnumdir af fötum og skóm í byrjun þessa árs.

„Verðlækkun ætti því að eiga sér stað á þessum mörkuðum af tvennum ástæðum, sökum sterkara gengis og afnámi gjalda,“ segir í tilkynningunni. Tekið er dæmi af heimilistækjum sem hafi lækkað um 17% frá því í október 2014 sem væntanlega sé vegna afnáms vörugjalda. Sömu sögu sé að segja um bílavarahluti og sjónvörp. Hins vegar hafi vöruflokkurinn Viðhald efni, sem innihaldi ýmis konar byggingavörur, hækkað um 1,5% á þessum tveimur árum. Vörugjöld hafi verið afnumin af þessum vörum í upphafi árs 2015.

Lækkun vörugjalda hefði ein og sér átt að skila lægra vöruverði á þessum vöruflokki fyrir utan 18% styrkingu krónunnar. Verð á fötum og skóm hafi lækkað um 5,6% á síðustu tólf mánuðum en tollar af þeim vörum voru afnumdir í upphafi ársins sem fyrr segir. Hins vegar hafi verið gert ráð fyrir að afnám tollanna leiddi til 7-8% vörulækkunar fyrir utan áhrif af sterkara gengi. „Ljóst er að sú verðlækkun hefur ekki skilað sér til neytenda,“ segir ennfremur. Þá hafi húsgögn og lítil heimilistæki hækkað um 2% undanfarið ár.

„Ástæður þessa eru óljósar en þar sem hér er fyrst og fremst um innfluttar vörur að ræða mætti ætla að mikil gengisstyrking hefði átt að skila sér í lægra verði til neytenda. Niðurstaðan er sú að neytendur virðast víða eiga inni verðslækkun á innfluttum vörum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert