Þolendur sækja síður sálfræðiþjónustu en aðrir

Þeir sem verða fyrir kynferðisofbeldi leita sér síður aðstoðar.
Þeir sem verða fyrir kynferðisofbeldi leita sér síður aðstoðar. mbl.is/Styrmir Kári

Sálfræðiþjónusta neyðarmóttöku vegna kynferðisofbeldis er ekki eins vel nýtt og æskilegt væri. Tæplega 70% þeirra sem leita til neyðarmóttökunnar segjast vilja nýta sér sálfræðiþjónustuna sem er í boði en einungis einn þriðji af þeim raunverulega nýtir sér hana. Þrátt fyrir það er þetta ívið betri nýting hér á landi en hjá öðrum þjóðum. 

Þetta kemur fram í nýrri rannsókn á sálfræðiþjónustu neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis sem kynnt var í erindi þeirra Agnesar Bjargar Tryggvadóttur, verkefnastjóra sálfræðiþjónustu neyðarmóttökunnar, og dr. Berglindar Guðmundsdóttir, yfirsálfræðings sálfræðiþjónustu geðsviðs Landspítalans og dósents í sálfræði við læknadeild Háskóla Íslands.

„Það er þekkt vandamál að þolendur kynferðisbrota leita sér síður en aðrir hjálpar þrátt fyrir að langtímaafleiðingar ofbeldisins hafi víðtækar afleiðingar og get verið mjög alvarlegar,” segir Berglind og nefnir dæmi um langtímaafleiðingar ofbeldisins: lágt sjálfsmat, áfallastreituröskun, kvíða, þunglyndi og áfengis- og vímuefnamisnotkun meðal annars. 

Meiri líkur eru á að þeir sem verða fyrir kynferðisofbeldi snemma á ævinni verði aftur fyrir kynferðisofbeldi síðar. Því miður þróa margir þolendur sem ekki leita sér hjálpar með sér vanda eins og áfallastreitu sem hefur margvísleg áhrif á líf þolandans.

Góður vinur getur oft veitt hjálparhönd þeim sem verður fyrir …
Góður vinur getur oft veitt hjálparhönd þeim sem verður fyrir kynferðisofbeldi. mbl.is/Styrmir Kári

Fyrsta upplifun í heilbrigðisþjónustu mikilvæg 

Rannsóknin beindist að því að leita svara við spurningunni: „Af hverju nýtir fólk sér ekki þá þjónustu sem er í boði og hver eru afdrif þolenda?“ Til að leita svara við þessari spurningu var ánægja með þjónustuna skoðuð, hindranir sem fólk upplifði og langtímaafleiðingar voru einnig kannaðar. Fyrsta upplifun fólks sem leitar til heilbrigðisþjónustu eftir kynferðisofbeldi skipti mestu máli um hvort áframhaldanda þjónusta sé nýtt.  

Meiri hluti þátttakenda var ánægður með þjónustuna en 28% greindu frá óánægju með einhverja þætti þjónustunnar, til dæmis ónærgætni heilbrigðisstarfsmanns á einhverjum tímapunkti í ferlinu, aðbúnaði að neyðarmóttökunni. Einnig kom fram að sumir vildu fá meiri stuðning á neyðarmóttöku.

Rannsóknin náði til rúmlega 600 manns sem leituðu til neyðarmóttökunnar vegna kynferðisofbeldis á árunum 2010-2014. Einungis náðist í 189 einstaklinga (20%) sem samþykktu að taka þátt í rannsókninni en 107 svöruðu rannsókninni. Því ber að túlka niðurstöðu með varkárni.

Þegar sálfræðiþjónusta á neyðarmóttökunni er skoðuð sérstaklega kemur fram að 70% svarenda voru ánægð með hana en 22% óánægð. Berglind segir að það að 22% séu óánægð sé „ekki ásættanlegt“.

„Úrtakið er mjög lítið og því getum við ekki leyft okkur að alhæfa. Þrátt fyrir það fáum við mikilvægar upplýsingar,“ segir Berglind og bætir við: „Við höldum áfram að vinna með allar þessar upplýsingar. Við trúum á sjálfsskoðun og sjálfsgagnrýni og viljum halda áfram að koma til móts við þarfir skjólstæðinga okkar,“ segir Berglind. 

mbl.is/Styrmir Kári

Afneitun og flótti

„Afleiðingar kynferðisofbeldis eru víðtækar og leiða gjarnan til þess að að fólk kennir sér um. Það sem gerðist átti ekki að geta gerst. Þegar það gerist fer fólk oft að leita skýringa á röngum stað. Sá staður er gjarnan hjá þeim sjálfum og þeir kenna sér um að hafa lent í þessu. Fólk festist ýmist í þeirri óskhyggju að þetta hafi ekki gerst eða það brýst út í sjálfsásökun. Þess vegna er nauðsynlegt að hafa einhvern til að hjálpa sér að vinna úr hlutunum,” segir Berglind. Þar geta komið ýmsir aðilar til aðstoðar eins og Stigamót, neyðarmóttakan, sálfræðingur á stofu eða góður vinur.

„Við vitum að góður vinur getur gert kraftaverk eins og segir í laginu. Góður félagslegur stuðningur er einn sterkasti varnarþáttur í erfiðum aðstæðum. En þá verðum við líka að þora að nýta okkur þessa hjálp. Oft langar okkur að fela það sem gerðist og flýja. Að flýja er náttúrulegt varnarviðbragð og við verjum okkur með því að flýja. Það er sammannlegt, segir Berglind. 

Rannsóknin var kynnt á málþingi sem haldið var í gær um neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis sem var til heiðurs Eyrúnu Björgu Jónsdóttur, hjúkrunarfræðingi og verkefnastjóra neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis.

Dr. Berglind Guðmundsdóttir, dósent í sálfræði við læknadeild HÍ og …
Dr. Berglind Guðmundsdóttir, dósent í sálfræði við læknadeild HÍ og yfirsálfræðingur Landspítala Háskólasjúkrahúss. Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert