Meirihlutinn fallinn í Fjallabyggð

Frá Siglufirði í Fjallabyggð. Meirihlutinn í sveitarfélaginu féll í dag.
Frá Siglufirði í Fjallabyggð. Meirihlutinn í sveitarfélaginu féll í dag. Sigurður Bogi Sævarsson

Meirihlutinn í bæjarstjórn Fjallabyggðar er fallinn eftir að Kristinn Kristjánsson, sem kosinn var fyrir Fjallabyggðarlistann, gekk úr meirihlutastarfi flokksins með Samfylkingunni. Samkvæmt heimildum mbl.is ætlar Kristinn að vera sjálfstæður í bæjarstjórn í kjölfarið.

F-listinn var stofnaður árið 2014 og náði  tveimur mönnum inn í bæjarstjórn í kosningum það ár. Það gerði Samfylkingin líka og mynduðu flokkarnir tveir meirihlutasamstarf, en sjö fulltrúar eiga sæti í bæjarstjórninni. Sjálfstæðisflokkurinn náði einnig tveimur mönnum inn, en Framsóknarflokkurinn einum fulltrúa.

Á síðasta kjörtímabili mynduðu fyrst sjálfstæðismenn og framsóknarmenn meirihluta, en hann sprakk á miðju tímabili og tóku sjálfstæðismenn saman við einn fulltrúa úr Vinstri grænum og einn úr Samfylkingu.

Hvorki náðist í Kristinn né Ríkharð Hólm Sigurðsson, sem voru báðir kosnir fyrir Fjallabyggðarlistann, við gerð fréttarinnar né fulltrúa Samfylkingarinnar. Ekki hefur verið haldinn bæjarstjórnarfundur eftir að málið kom upp, en samkvæmt heimildum mbl.is tilkynnti Kristinn um ákvörðun sína með tölvupósti fyrr í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert