Eggjaskortur í desember?

Samkaup rekur m.a. verslanir Nettó.
Samkaup rekur m.a. verslanir Nettó. mbl.is/Hjörtur

Egg frá fyrirtækinu Brúneggjum hafa verið tekin úr sölu hjá verslunum Samkaupa, og er það varanleg ráðstöfun. Verslanir í eigu Samkaupa eru Nettó, Samkaup Strax, Samkaup Úrval, Kjörbúðin, Sunnubúð, Krambúð og Hólmgarður.

Fyrirtækið Brúnegg var til umfjöllunar í Kastljósi í gærkvöldi. Þar kom fram að eigendur Brúneggja hefðu blekkt neyt­end­ur í mörg ár með sölu á vist­væn­um eggj­um fyr­ir­tæk­is­ins. Starfs­fólk Mat­væla­stofn­un­ar hef­ur ít­rekað gert at­huga­semd­ir við aðbúnað á eggja­bú­um Brúneggja.

„Það var tekin ákvörðun um að taka eggin úr sölu eldsnemma í morgun. Þá var byrgjum tilkynnt að viðskiptum yrði hætt,“ segir Stefán Ragnar Guðjónsson, framkvæmdastjóri innkaupasviðs Samkaupa í samtali við mbl.is. 

Samkaup bætist nú í hóp þeirra verslana sem þegar hafa tekið Brúnegg úr sölu en nú hafa Melabúðin, Krónan, Bónus og Hagkaup fjarlægt eggin úr verslunum sínum.

Stefán bendir á að málið gæti leitt til eggjaskorts í desember en í Kastljósi í gær kom fram að Brúnegg væri með um 20% hlutdeild á eggjamarkaðinum. „Desember er náttúrulega einn stærsti mánuðurinn í eggjasölu og við sjáum fram á að það gæti orðið erfitt næsta mánuðinn að bjóða upp á næg egg í búðunum okkar, sérstaklega í Reykjavík,“ segir Stefán. Verslanir Samkaupa eru um allt land og úti á landi eru eggin keypt af eggjabúum í næsta nágrenni. Annað á við í Reykjavík og því gæti staðan orðið erfiðari þar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert