Meira en helmingur konur

66 doktorar voru heiðraðir í dag.
66 doktorar voru heiðraðir í dag. Ljósmynd/Háskóli Íslands

Sextíu og sex doktorar sem brautskráðst hafa frá Háskóla Íslands á tímabilinu 1. desember 2015 til 1. desember 2016 tóku í dag við gullmerki skólans á árlegri Hátíð brautskráðra doktora. Hún fór nú fram í sjötta sinn í Hátíðarsal skólans og viðstaddir athöfnina voru forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, sem flutti ávarp og Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Háskóla Íslands. 

Doktorarnir 66 sem tóku við gullmerki háskólans í dag koma af öllum fimm fræðasviðum skólans. Í hópnum eru 24 karlar og 42 konur. Níu hafa lokið sameiginlegu doktorsprófi frá Háskóla Íslands og erlendum háskóla. Rúmur þriðjungur hinna nýju doktora er með erlent ríkisfang og kemur víða að úr heiminum, annars staðar úr Evrópu, frá Norður-Ameríku, Asíu og Afríku. 

Næstmesti fjöldi doktora í lok ársins 

Þegar árið 2016 hefur runnið sitt skeið munu 70 nemar hafa varið doktorsritgerð sína við skólann á árinu. Það er næstmesti fjöldi sem brautskráðst hefur með þennan lærdómstitil frá Háskóla Íslands á einu ári. Enn fremur telur sá hópur sem lokið hefur doktorsprófi frá skólanum frá upphafi nú um 600 manns.

„Með hátíðinni vill Háskóli Íslands fagna því öfluga starfi sem doktorsnemar vinna innan skólans og þeim aukna krafti sem færst hefur í rannsóknatengt nám í háskólanum á síðustu árum. Í samstarfi við leiðbeinendur sína leggja doktorsnemar sitt af mörkum til þekkingarleitar alþjóðasamfélagsins og taka virkan þátt í að efla háskólann sem alþjóðlega rannsóknastofnun. Þess má sjá glöggt merki í góðum árangri í birtingu vísindagreina í alþjóðlegum tímaritum og með stöðu Háskóla Íslands á matslista Times Higher Education World Rankings yfir bestu háskóla heims,“ segir jafnframt í tilkynningunni.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert