Blaðamanni úthlutað neyðarhnappi

Fyrir um fimm vikum handtók lögregla Guðmund Spartakus Ómarsson, sem lögregluyfirvöld hafa viljað ná tali af vegna hvarfs Friðriks Kristjánssonar. Var Guðmundur færður til yfirheyrslu en sleppt að henni lokinni. Frá þessu greinir Stundin.

Miðillinn birti í morgun ítarlega umfjöllun um mál Friðriks, sem hvarf í Paragvæ árið 2013. Í fréttaskýringu Stundarinnar greinir blaðamaðurinn Atli Már Gylfason frá því að eftir að hann hóf vinnslu greinarinnar fóru honum að berast nafnlausar símhringingar að næturlagi. Honum hefur nú verið úthlutað neyðarhnappi sem er beintengdur lögreglu.

Síðast heyrðist frá Friðriki 27. mars 2013. Hann var þá á rútustöð í Brasilíu á leið til Paragvæ. Hinn 31. mars reyndi hann þrisvar að ná í fyrrverandi kærustu sína, sem þá bjó í Kína, en hún varð ekki hringinganna vör fyrr en síðar.

Frá því hefur verið greint að hvarf Friðriks tengist mögulega skipulagðri glæpastarfsemi. Í umfjöllun Stundarinnar er greint frá því að við upphaf ferðalags síns hafi Friðrik hitt íslenskan mann í Amsterdam, sem er sagður hafa myndað þriggja manna „teymi“ ásamt Sverri Þór Gunnarssyni, sem afplánar nú 22 ára dóm í Brasilíu vegna fíkniefnasmygls, og fyrrnefndum Guðmundi Spartakusi, sem Stundin segir lýst sem „hægri hönd“ Sverris Þórs.

Maðurinn í Amsterdam er sagður hafa „flúið“ til Íslands eftir að hafa átt samtal á Skype við ónefndan íslenskan mann í Paragvæ, sem sagðist hafa myrt Friðrik. Að því er fram kemur í frétt Stundarinnar á hinn ónefndi maður að hafa sýnt manninum í Amsterdam afskorið höfuð Friðriks. Maðurinn í Amsterdam er sagður hafa sett sig í samband við lögregluyfirvöld á Íslandi í kjölfarið og flogið heim.

Stundin segir umræddan mann hafa farið af landi brott í síðustu viku vegna málsins og hann dvelji nú á ótilgreindum stað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert