Jólin eru komin í Heiðmörk

Sævar Hreiðarsson skógarhöggsmaður og Helgi Gíslason leita að trjám sem …
Sævar Hreiðarsson skógarhöggsmaður og Helgi Gíslason leita að trjám sem hentar vel að fella. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Allt að 2.000 grenitré verða felld í Heiðmörk á líðandi vikum og seld sem jólatré. Skógarmenn hafa að undanförnu farið víða um þetta víðfeðma skóglendi og valið úr fjölda trjáa. Algengast er þó að fólk sem kemur í Heiðmörkina velji sér sjálft tré og höggvi.

„Mest er tekið af 8 til 12 ára trjám, að stærstum hluta furum sem eru um það bil einn og hálfur til tveir metrar á hæð,“ segir Helgi Gíslason, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur, í samtali við Morgunblaðið.

Hentug stærð á Hólmsheiði

Allar helgar aðventunnar er jólamarkaður í gamla Elliðavatnsbænum í Heiðmörk og sá viðburður er jafnan fjölsóttur. Er til dæmis mikið sóttur af fjölskyldum og barnafólki sem þarna finna skemmtilegan jólaanda.

Hjá starfsfólki markaðarins fæst líka leiðsögn um hvar best sé að nálgast jólatré í hentugri stærð, en í ár er fólki beint á nágrenni Elliðavatns eða Hólmsheiði ofan Suðurlandsvegar. Starfsmenn í Heiðmörk sjá svo sjálfir um að fella stór tré, þriggja til fjögurra metra, sem gjarnan eru keypt til að setja upp í kirkjum, fyrirtækjum og á öðum opinberum stöðum. „Salan á jólatrjám fer af stað af alvöru núna um helgina og eykst síðan jafnt og þétt eftir því sem nær dregur hátíðinni,“ segir Helgi.

Nytjar af Heiðmerkurskógum verða sífellt meiri og betri og Helgi gerir ráð fyrir að afurðirnar á þessu ári verði um 4.500 rúmmetrar. Mikið fellur til af viði sem nýttur er sem brenni, til dæmis í kamínur eða pitsuofna á veitingastöðum. Þá er trjákurl vinsælt til dæmis í göngustíga. Einnig fellur mikið til af gildum trjám sem er flett í sundur. Skila þau þá góðum borðum sem eru þurrkuð og unnin og þykja vera afbragðsgóður smíðaviður.

Spretta með eindæmum

Síðasta sumar var með eindæmum gott og sprettan samkvæmt því. „Stór hluti skógarins hér í Heiðmörk er 40 til 60 ára. Trén því orðin mjög há og árvöxturinn mikill, oft í kringum hálfur metri. Á þessu aldursskeiði skilar skógurinn líka miklu og svo verður næstu árin. Þar er ég bæði að tala um timburnytjar og svo kolefnisbindingu sem er áhersluþáttur í skógræktarstarfi í dag,“ segir Helgi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert