10 teknir við umferðareftirlit

Töluvert annríki var hjá umferðardeild lögreglunnar í nótt. Hún stöðvaði tíu ökumenn við umferðareftirlit á Skólavörðuholtinu á tveggja og hálfs tíma tímabili í nótt, sem voru grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna.  

Tveir þeirra sinntu ekki stöðvunarmerkjum lögreglu heldur óku af vettvangi. Þeir voru handteknir skömmu síðar og fengu að gista í fangageymslu lögreglu í nótt. Þá var hald lagt á bíllykla fjögurra ökumanna og þeir látnir hætta akstri þar sem þar sem þeir höfðu neytt áfengis, þótt öndunarsýni sýndu þá undir refsimörkum.

Einn maður var svo handtekinn við lögreglustöðina á Hverfisgötu um hálftvöleytið í nótt. Maðurinn var í annarlegu ástandi og hafði verið að trufla störf lögreglumanna við Skólavörðuholt. Hann hélt síðan niður að lögreglustöðinni við Hverfisgötu og hélt áfram fyrri iðju. Maðurinn var vistaður í fangageymslu meðan ástand hans lagast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert