Áfram hlýtt og vætusamt

Eftir hlýjan og vætusaman nóvembermánuð er ekki útlit fyrir miklar breytingar á næstunni, að því er segir í hugleiðingum vakthafandi veðurfræðings á Veðurstofu Íslands um helgarveðrið og lætur jólasnjórinn því eitthvað bíða eftir sér.

Áfram er útlit fyrir sunnanáttir næstu daga og verður vætusamt og hlýtt í veðri fram á sunnudag og er gert ráð fyrir að hiti verði á bilinu 1-8 stig. Lengst af má þó búast við þurrviðri á Norður- og Austurlandi

Þá má búast við skammvinnri norðanátt með lítils háttar rigningu eða slyddu nyrst á landinu á sunnudag og verður þá heldur svalara veður á þeim slóðum.

Ekki er þó alveg hálkulaust á vegum þrátt fyrir hlýindin, en á vef Vegagerðarinnar kemur fram að hálkublettir séu m.a. á Holtavörðuheiði og Hrútafirði. Hálka er einnig á Laxárdalsheiði og Steingrímsfjarðarheiði, sem og á mörgum vegum á Norður- og Austurlandi og þá er Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði ófærar.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert