Flugvélin varð eldsneytislaus

Engan sakaði í lendingunni.
Engan sakaði í lendingunni. mbl.is/Árni Sæberg

Flugvélin sem nauðlenti í Heiðmörk í hádeginu í dag varð eldsneytislaus. Eftir vettvangsrannsókn var henni flogið af svæðinu um klukkan fjögur sama dag. Rannsóknin leiddi í ljós að ekkert annað var að flugvélinni og því óhætt að fljúga henni aftur á loft og í þetta skipti með fullan tank af eldsneyti. 

„Við vitum ekki enn þá hvað olli því. Við rannsökum það út frá þeim gögnum sem við erum búin að afla,“ segir Ragnar Guðmundsson, stjórnandi rannsóknar hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa, spurður hvað olli eldsneytisleysinu. Hann segir það ekki algengt að flugvélar verði eldsneytislausar en það komi samt fyrir.  

Flugvélin lenti í Heiðmörk sem er vatnsverndarsvæði og því voru talsverðar áhyggjur af mögulegu mengunarslysi. Fulltrúi heilbrigðiseftirlitsins fór á svæðið til að kanna aðstæður. Lögð var áhersla á að koma vélinni af svæðinu sem fyrst. Gekk það vel og eftir vettvangsrannsókn var veginum lokað á ný þegar flugvélin tók aftur á loft.

Frétt mbl.is: Eng­in meng­un af flug­vél­inni

Vettvangsrannsókn er lokið en unnið er að rannsóknarskýrslunni, að sögn Ragnars.   

Mikið mildi telst að lendingin gekk vel. Flugmaðurinn og eigandi flugvélarinnar, Emil Ágústs­son, sagði í sam­tali við mbl.is fyrr í dag að gangtrufl­an­ir hafi neytt hann til að lenda henni. Viðtalið við hann má lesa hér:  

Frétt mbl.is: „Eitt­hvað sem maður er bú­inn að æfa“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert