Dæmdur fyrir að hóta hafnarverði

Maðurinn var dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi …
Maðurinn var dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Austurlands. mbl.is/Gúna

Útgerðarmaður á Austurlandi var í síðustu viku dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Austurlands. Hann er dæmdur fyrir að hafa hótað hafnarverði lífláti og ýtt við honum með efri hluta líkama síns með ógnandi hætti í maí í fyrra.

Ákærði kvaðst hafa verið að koma að landi eftir erfiðan túr. Starfmenn Fiskistofu hafi beðið hann um afladagbók og kvaðst ákærði hafa brugðist önugur við, en hann hafi ekki verið búinn að fylla bókina út.

Hafnarvörðurinn hafi verið á bryggjunni og hafi ákærða þótt hann vera að hlera tal sitt við starfsmenn Fiskistofu. Kvaðst ákærði hafa sagt hafnarverðinum að gefa þeim næði á meðan þeir ræddu saman, með orðunum „drullaðu þér í burtu“ og „þetta kemur þér ekki við“, en þvertók fyrir að hafa hótað honum lífláti.

Ákærði viðurkenndi að hafa, er upp á bryggjuna var komið, „rekið bumbuna“ í hafnarvörðinn. Ákærði sagðist hafa verið reiður og geðvondur og viðurkenndi öðrum þræði að hafnarvörðurinn hafi „örugglega jafnvel upplifað þetta sem ógnun“, en kvaðst á hinn bóginn draga í efa að hann hafi upplifað mikla ógn. Vísaði ákærði þar til þess að hafnarvörðurinn hafi oftsinnis komið við í fiskvinnslu ákærða eftir þetta. Ákærði tók einnig fram að eftir að löndun var lokið hafi hann beðið bæði hafnarvörðinn og starfsmenn Fiskistofu afsökunar.

Tveir starfsmenn Fiskistofu báru vitni en sögðust hafa séð þegar ákærði byrjaði að hóta hafnarverðinum lífláti, þ.e. að drepa hann ef hann „drullaði“ sér ekki í burtu. Töldu þeir augljóst að ákærði hefði beint orðum sínum að hafnarverðinum.

Dómurinn horfði meðal annars til þess að ákærði hafi ekki áður gerst sekur um refsivert brot. Brot af því tagi sem hér um ræðir varða fangelsi allt að 6 árum.  Við ákvörðun refsingar verður hins vegar við það miðað að ákærði hafi samdægurs beðið brotaþola afsökunar. Einnig er til mildunar að ákærði játaði að hluta sakargiftir fyrir dómi. Er hann því dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi.

Dóminn má lesa í heild sinni hér

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert