Kosningar „engin katastrófa“

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði aðspurður í Kastljósi Ríkisútvarpsins að það yrði „engin katastrófa“ þó að til þess kæmi að haldnar yrðu nýjar þingkosningar í vor tækist stjórnmálaflokkunum ekki að koma saman ríkisstjórn. 

Bjarni var spurður um ummæli sín nýverið um að ef til vill væri rétt að kjósa einfaldlega aftur í ljósi erfiðleika flokkanna við að setja saman ríkisstjórn. Sagðist hann með því hafa verið að bregðast við ummælum Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, um að hugsanlega þyrfti að mynda þjóðstjórn.

„Það er engin katastrófa ef það er niðurstaðan. Ef það er niðurstaðan af átökum á vettvangi stjórnmálanna á þessu ári að það hafi einhvern veginn komið þannig upp úr kjörkössunum að það er ekki hægt að raða saman kubbunum þannig að það sé traust til staðar og sameiginleg sýn á verkefnin, nú þá er ekkert að því mín vegna að það sé kosið aftur.“

Það væri einungis lýðræðislegt. Hins vegar teldi hann það ekkert endilega það líklegasta í stöðunni í dag. Honum hafi þótt verst hvað flokkarnir hafi verið iðnir við að setja skilyrði fyrir mögulegu samstarfi. Tilraunir til stjórnarmyndunar eftir kosningar hafi verið eins og að ferðast um í völundarhúsi þar sem sífellt væri komið að leiðum sem ekki væru færar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert