Bæturnar lækkaðar um milljón

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Hæstiréttur staðfesti í dag þriggja mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm Héraðsdóms Reykjavíkur yfir karlmanni sem sakfelldur var fyrir að hafa ekið bifreið of hratt miðað við aðstæður í febrúar 2015 og orðið valdur að umferðarslysi er hann ók í veg fyrir bifreið sem kom úr gagnstæðri átt. Við áreksturinn varð ökumaður hinnar bifreiðarinnar fyrir verulegu heilsutjóni segir í dómnum.

Fram kemur í dómi héraðsdóms að maðurinn hafi verið á leið norður Suðurlandsveg við Rauðavatn í Reykjavík að kvöldi 11. febrúar 2015. Myrkri og snjókomu hafi verið fyrir að fara og snjóslabb verið á veginum og hálka. Of stutt var á milli bifreiðar hans og næstu bifreiðar á undan. Maðurinn ók yfir á hinn vegarhelminginn til þess að forðast að aka aftan á þá bifreið þegar hægt var á henni. Við það lenti hann framan á bifreið sem kom úr gagnstæðri átt.

Fram kemur í dómnum að ökumaður hinnar bifreiðarinnar hafi hlotið fjöláverka/háorkuáverka, kjálkabrot beggja vegna, brot í lendarhrygg, brot á báðum upphandleggjum, opið brot í vinstri lærlegg, opið hnéskeljabrot vinstra og hægra megin og brot í mjaðmarspaða vinstra megin.

Maðurinn var dæmdur til þess að greiða 2 milljónir króna í miskabætur með vöxtum auk málskostnaðar og áfrýjunarkostnaðar upp á rúmlega 1,2 milljónir króna. Hæstiréttur lækkaði bæturnar en héraðsdómur hafði dæmt manninn til þess að greiða 3 milljónir króna í miskabætur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert