Föndruðu til styrktar UNICEF

Það var mikil stemning hjá krökkunum.
Það var mikil stemning hjá krökkunum. Ljósmynd/Aðsend

Börnin á frístundaheimilum Tjarnarinnar nýttu nóvember vel, föndruðu dagana langa og undirbjuggu stórglæsilegan jólamarkað sem fram fór í Frostaskjóli í síðustu viku. Markaðurinn var til styrktar UNICEF.

Þau sem stóðu að jólamarkaðinum voru frístundaheimilin Draumaland, Eldflaugin, Frostheimar, Halastjarnan, Selið, Skýjaborgir og Undraland. 

„Það er yndislegt að sjá hvað börnin voru frumleg í að föndra og hvað jólamarkaðurinn þeirra var metnaðarfullur og skemmtilegur. Við hjá UNICEF á Íslandi hlökkum til að sjá hvaða sannar gjafir börnin velja og hlökkum til að koma gjöfunum til skila. Við þökkum innilega fyrir þetta jólalega og fallega framtak," segir Sigríður Víðis Jónsdóttir, upplýsingafulltrúi UNICEF.

Á borðum voru frumlegir snjókallar, jólasveinar, glæsileg piparkökuhús, kertastjakar, snjókorn, litrík jólakort og margvíslegir hlutir sem börnin höfðu sjálf föndrað.

Mætingin var frábær, stemmningin góð og alls söfnuðust hvorki meira né minna en 375.000 krónur. Börnin munu nú ákveða sjálf hvaða sannar gjafir UNICEF​ þau kaupa fyrir upphæðina. Sannar gjafir eru hjálpargögn sem UNICEF sendir til barna vítt og breitt um heiminn, svo sem námsgögn, moskítónet, hlý teppi, bóluefni og ormalyf. 

Gleðin var við völd.
Gleðin var við völd. Ljósmynd/Aðsend
Krakkarnir föndruðu ýmislegt.
Krakkarnir föndruðu ýmislegt. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert