Skólinn ekki lengur í fyrsta sæti

Allir þurfa að leggja sig fram um að setja námið …
Allir þurfa að leggja sig fram um að setja námið í skólanum í forgang, að sögn stærðfræðikennara á Akureyri. mbl.is/Styrmir Kári

„Það er almennt erfiðara ástand í skólunum í dag, eins og agavandamál. Skólinn er ekki lengur númer eitt, tvö og þrjú. Það er meira í orði en á borði,“ segir Sævar Árnason, stærðfræðikennari á unglingastigi í Brekkuskóla á Akureyri til tuttugu ára, spurður út í slaka útkomu íslenskra nemenda í PISA-könnuninni. Hann tekur fram að staðan sé flókin og ekki sé hægt að taka sérstaklega einn þátt út umfram annan sem útskýrir stöðu íslenskra ungmenna í samanburði við mörgu önnur OECD-ríki.  

Hann segir að samfélagið hafi breyst mikið á þeim 20 árum frá því hann byrjaði að kenna. „Það var almennt viðurkennd staðreynd að skólinn gekk fyrir. Tómstundastarf og íþróttir voru í öðru og þriðja sæti,” segir Sævar. Hann segir nemendur gefi sér minni tíma til að læra og sinna skólanum vel því margt annað í lífi þeirra fær meira vægi. Í því samhengi nefnir hann tómstundastarf og íþróttir sem dæmi. Hann segir fjölmarga nemendur stunda afreksíþróttir og mikill tími fari í það. Oft komi þeir þreyttir í skólann og fyrir vikið eru þeir stundum ekki tilbúnir að læra meira í dag en í gær.

Einnig hika foreldrar ekki við að fá leyfi fyrir börnin sín úr skóla til að sinna tómstundastarfi og ýmsu öðru, að sögn Sævars. Hann segir að með því fái skólinn þau skilaboð að hann sé ekki jafn mikilvægur. Hann tekur samt fram að góður árangur hafi náðst hér á landi á sviði íþrótta, menningar, lista og í tónlistalífinu. Ekki megi gleyma því.  

Litlar breytingar á stærðfræðikennslunni

Í stærðfræðikennslunni segist Sævar ekki hafa breytt miklu í sínum kennsluháttum og kennsluefni á þessum 20 árum. Nýtt námsefni í stærðfræði kom inn fyrir 10 árum. Hann bendir á að með því hafi verið ýjað að því að menn ættu að breyta kennsluháttum. „Það hafa komið ýmsar nýjungar og tískubylgjur sem fólk er misduglegt á prufa,“ segir Sævar um stærðfræðikennslu. Margir skólar hafa tekið upp nýtt námsefni í stærðfræði á yngsta- og miðstigi sem nefnist Skali sem Sævar segist ekki vera búinn að taka upp í sínum skóla. Hann er eini stærðfræðikennarinn á unglingastigi í skólanum.

Sævar segir að ekki sé hægt að skella skuldinni á slaka framistöðu í stærðfræði beint á kennsluefni og kennsluhætti í skólunum. Hann segir vandann fjölþættari og bendir á að fleiri agavandamál eru í mörgum bekkjum í dag en var áður. Hann segir skólastarfið almennt vera metnaðarfullt og kennarar leggi sig fram um að standa sig vel.

mbl.is/Kristján Kristjánsson

Eitt læsisátak leysir ekki vandann

„Þetta verður ekki leyst með einu læsisátaki þó það sé gott á sinn hátt. Heldur þarf á allsherjar hugarfarsbreytingu að halda svo nemendur fari í skólann til þess að læra meira í dag en í gær og allir verða að standa á bak við það,“ segir Sævar. Hann telur að menntamálaráðuneytið eigi að skoða betur hvað hafi breyst í skólunum frá árinu 2000, þegar Ísland tók fyrst þátt í PISA, og hvernig staðan er í dag. 

Hann bendir einnig á að þeir sem starfa í skólunum hafi lítið sem ekkert að segja til um og koma að því að móta menntastefnuna heldur koma boð að ofan um breytingar. Hann segir nýjum kennsluháttum og námsefni oft „dembt á kennara hvort sem þeim líki það eða ekki eða eru búnir undir það,“ segir Sævar.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert