Framhaldið ákveðið í kvöld?

mbl.is/Hjörtur

Forystumenn stjórnmálaflokkanna fimm, sem átt hafa í óformlegum stjórnarmyndunarviðræðum undanfarna viku, funda klukkan 19:30 í kvöld um mögulegt ríkisstjórnarsamstarf. Eftir það funda þingflokkar flokkanna hver í sínu lagi þar sem staðan verður metin. Væntanlega skýrist í kvöld eða í fyrramálið hvort farið verður í formlegar stjórnarmyndunarviðræður.

Fulltrúar stjórnmálaflokkanna hafa haft á orði um helgina að kominn sé tími til þess að ákveða hvert framhaldið verði. Hvort viðræðum verði hætt eða hvort nægjanlegur grundvöllur sé fyrir hendi til þess að hefja formlegar viðræður og leggja drög að stjórnarsáttmála. Skilaboðin hafa verið ólík frá fulltrúum flokkanna hvort líklegt væri að þeir næðu saman.

Þannig hafa fulltrúar Pírata lýst sig bjartsýna. Birgitta Jónsdóttir, þingmaður flokksins, sagði í þættinum Vikunni í Ríkisútvarpinu fyrir helgi að 90% líkur væru á að ríkisstjórn flokkanna fimm yrði að veruleika. Smári McCarthy, samflokksmaður Birgittu, sagði að sama skapi í gær í þættinum Vikulokin á Rás 1 að hann sæi ekki annað en að það myndi ganga.

Fulltrúar Viðreisnar hafa hins vegar verið hóflegri í yfirlýsingum. Benedikt Jóhannesson, formaður flokksins, sagði í samtali við mbl.is á föstudaginn að hann teldi að flokkarnir fimm hefðu verið að nálgast en það yrði að koma í ljóst hvert framhaldið yrði. Þannig væru enn ýmsir þröskuldar sem þyrfti að komast yfir áður en hægt yrði að hefja formlegar viðræður.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, sagði í samtali við mbl.is í gær að of snemmt væri að segja til um framhaldið. Ekkert fast væri enn í hendi eftir fundi flokkanna. Þannig lægju til að mynda engar tillögur fyrir varðandi sjávarútveginn.

Flokkarnir fimm sem eiga í óformlegum stjórnarmyndunarviðræðum eru VG, Píratar, Viðreisn, Björt framtíð og Samfylkingin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert