35-40 metrar á sekúndu

Veðurstofa Íslands.

Fyrir hádegi hvessir mikið á suðaustanverðu landinu, en einnig norðaustan- og austanlands eftir hádegi þegar vestan vindröst fer hratt yfir landið. Búast má við vestan 18-25 m/s í meðalvindi og vindhviðum allt að 35-40 m/s á Suðausturlandi, Austfjörðum og einnig norðaustanlands frá Skjálfanda og austur með norðurströndinni. Síðdegis má einnig búast við éljagangi norðaustan til, einkum á fjallvegum, segir í fréttatilkynningu frá veðurfræðingi Vegagerðarinnar.

Á Suðurlandi eru hálkublettir og éljagangur í Þrengslum og Mosfellsheiði. Snjóþekja og éljagangur er víða á Suðurlandi.

Á Vesturlandi eru vegir að mestu greiðfærir en þó er hálka og éljagangur á Bröttubrekku en snjóþekja er á Holtavörðuheiði.

Á Vestfjörðum eru hálkublettir eða hálka á flestum fjallvegum en snjóþekja og snjókoma er á Steingrímsfjarðarheiði og Þröskuldum.

Um norðanvert landið eru vegir að mestu greiðfærir. Hálka er á Öxnadalsheiði, snjóþekja er á Vatnsskarði en krapi á Þverárfjalli.

Á Austur- og Suðausturlandi eru vegir greiðfærir en hálkublettir eru á Fjarðarheiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert