Fjórir grunaðir um fjárkúgun

Ljósmynd/Kristinn Freyr Jörundsson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók fjóra unga menn skömmu fyrir miðnætti í gær grunaða um húsbrot og fjárkúgun á heimili í austurhluta Reykjavíkur. Mennirnir voru allir látnir lausir að lokinni skýrslutöku, segir í dagbók lögreglunnar.

Á þriðja tímanum í nótt hafði lögreglan afskipti af tveimur ungum stúlkum í bifreið við Ingólfsstræti en þær voru að neyta fíkniefna auk þess sem þær voru með eiturlyf á sér.

Þrír teknir á þrjátíu mínútum

Tveir ökumenn voru handteknir og þeim þriðja var gert að hætta akstri þar sem hann hafði neytt áfengis en mældist undir refsimörkum í gærkvöldi. Um var að ræða umferðareftirlit á vegum umferðardeildar lögreglunnar í miðborginni sem stóð yfir í 30 mínútur (22-22:30).

Síðdegis í gær var síðan ferð ölvaðs ökumanns stöðvuð á Hafnarfjarðarvegi við Arnarnes af lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert