Þingið og formenn fái svigrúm

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Eggert

Þó að kostum til stjórnarmyndunar hafi fækkað segir Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, þá ekki alla fullreynda. Framsóknarflokkurinn sé tilbúinn að taka þátt í stjórnarmyndun. Hann telur skynsamlegt að gefa þinginu svigrúm til að ljúka málum og formönnum að ræða óformlega saman án pressu.

Píratar skiluðu stjórnarmyndunarumboðinu til Guðna Th. Jóhannessonar forseta nú síðdegis eftir að upp úr viðræðum þeirra, Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Vinstri grænna slitnaði. Forsetinn lýsti því í kjölfarið yfir að hann myndi ekki fá neinum flokki umboðið um sinn en hvatti formennina þess í stað til að ræða óformlega saman.

Sigurður Ingi segir ljóst nú þegar sex vikur eru liðnar frá kosningum og eftir nokkrar tilraunir til viðræðna að erfitt sé að mynda meirihlutastjórn.

„Í ljósi þess að þingið er að störfum og þarf að starfa eitthvað fram í næstu viku til þess að ljúka mikilvægum málum ef ekki á illa að fara þá er kannski skynsamlegt að gefa þinginu það svigrúm og okkur forystumönnum stjórnmálaflokkanna um leið tækifæri til að ræða óformlega saman um hvaða leiðir séu þó enn færar án þess að það sé sett mikil pressa,“ segir hann.

Ekki allir kostir fullreyndir enn þá

Framsóknarflokkurinn hefur ekki tekið þátt í neinum viðræðum um stjórnarmyndun fram að þessu en aðrir flokkar en Sjálfstæðisflokkur hafa útilokað samstarf við hann. Sigurður Ingi segist ekki geta sagt til um hvort að staðan nú verði til þess að hugur annarra flokka til samstarfs við Framsóknarflokkinn breytist. Tíminn verði að leiða það í ljós.

„Það er orðið nokkuð skýrt að það er búið að prófa ýmsa kosti. Kostunum hefur fækkað. Þeir eru hins vegar kannski ekki allir fullreyndir. Það er kannski rétt að benda á það að við framsóknarmenn höfum ekki tekið þátt í formlegum viðræðum til þessa,“ segir formaður Framsóknarflokksins.

Sigurður Ingi segist þó ekki sjá fyrir sér neina ákveðna kosti hvað þetta varðar í augnablikinu. Hann hafi áður sagt að niðurstöður kosninganna kalli á breiðari skírskotun frá hægri til vinstri.

„Við erum öflugur miðjuflokkur sem oft hefur verið lykilatriði í því að mynda ríkisstjórn á Íslandi. Það hefur alla vegana ekki verið látið reyna á það enn en við erum auðvitað tilbúin til slíks og höfum ávallt verið,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert