Málamiðlanir liggja enn ekki fyrir

Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata.
Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata. mbl.is/Árni Sæberg

„Við ætlum að hittast aftur formennirnir eftir að hafa tekið púlsinn á okkar þingflokkum í hádeginu á morgun og þá mun eitthvað liggja fyrir um framhaldið. Hvort að við treystum okkur til þess að færa þetta í formlegar viðræður eða ekki,“ sagði Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata við fréttamenn í kvöld eftir að þingflokkar þeirra fimm stjórnmálaflokka sem átt hafa í óformlegum stjórnarmyndunarviðræðum höfðu fundað.

Þingflokkar Pírata og Samfylkingarinnar samþykktu að hefja formlegar viðræður en þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs ætlar að funda áfram í fyrramálið. Þingflokkar Viðreisnar og Bjartrar framtíðar funduðu fyrst hvor í sínu lagi en síðan saman á nefndasviði Alþingis. Endanleg ákvörðun um framhaldið verður tekin á fundi forystumanna flokkanna á morgun og er gert ráð fyrir að þingflokkarnir fundi síðan aftur í kjölfarið.

Birgitta sagðist hafa rætt við Katrínu Jakobsdóttur, formann VG. „Þau þurfa aðeins meiri tíma til þess að fara yfir málin og svo sjáum við bara hvað gerist á morgun.“ Spurð hvort VG hafi ekki samþykkt að fara í formlegar viðræður svaraði Birgitta: „Þau voru bara ekki búin að fara yfir þetta þannig að þau geta ekki gert það fyrr en búið er að fara yfir öll þessi ólíku mál sem við höfum verið að ræða núna undanfarna daga.“

„Við erum bara að reyna að komast á þann stað

Spurð hvort einhvers konar málamiðlun lægi fyrir í málum eins og skattamálum sjávarútvegsmálum og landbúnaðarmálum svaraði Birgitta: „Við erum bara að reyna að komast á þann stað.“ Spurð hvort hún myndi skila stjórnarmyndunarumboðinu til Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, ef ekki yrði samþykkt að hefja formlegar viðræður á morgun svaraði Birgitta: „Já að öllum líkindum.“

Birgitta sagðist telja mikilvægt að fólk fengi þann tíma sem það þyrfti til þess að fara yfir málin. Engin stjórnmálakreppa væri í landinu. „Það er ekkert sem hastar og betra að gera þetta á vandaðan hátt heldur en að þetta falli í sundur út af því að það er ekki búið að þræða þræðina nægjanlega vel saman. En það mun liggja fyrir á þessum næsta sólarhring geri ég ráð fyrir.“

Rifjað var upp að Birgitta hefði sagt á föstudaginn að hún væri 90% viss um að flokkarnir fimm gætu myndað ríkisstjórn og spurt hvort hún væri enn jafnviss. Svaraði hún því til að hún hefði látið orðin falla í skemmtiþætti þar sem hún hefði verið beðin um að skjóta á einhverja tölu. „Þannig að ég skaut bara á eitthvað.“

Birgitta sagði að hins vegar bæri mjög lítið á milli í raun og veru. „Við viljum öll breyta þessum kerfum á einhvern hátt en okkur greinir enn þá svolítið á um leiðina og það er þangað sem ég er að reyna að leiða fólk saman.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert