Sjálfstæðisflokkur í næstu stjórn

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks.
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég teldi rétt að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur héldu áfram með þriðja flokki. Það er langeðlilegast, miðað við hvernig þetta hefur gengið og segir sig eiginlega sjálft,“ segir Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurður um hvaða ríkisstjórn hann myndi vilja sjá.

Telur hann blasa við að Sjálfstæðisflokkurinn verði að vera í næstu ríkisstjórn, ekki verði hjá því komist.

Staðan virðist óljós eftir að óformlegar stjórnarmyndunarviðræður fimm flokka undir forystu Pírata fóru út um þúfur í dag. Brynjar segist ekki vita til þess að neinar viðræður séu hafnar milli stjórnmálaflokkanna. Telur hann að menn einbeiti sér nú að þingstörfunum. Það þurfi að afgreiða fjárlög, fjáraukalög og frumvarp um lífeyrisréttindi.

Spurður að því hvaða flokkur gæti myndað stjórn með núverandi stjórnarflokkum nefnir hann Viðreisn og VG. Báðir gætu komið til greina og ekki ættu að vera vandkvæði á því. Menn verði að hætta að útiloka einhverja tiltekna flokka og sýna ábyrgð í þeirri stöðu sem nú er komin upp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert