Erfingjar vilja koma hreint fram en óttast saksókn

Ef miðað er við umsvif Íslendinga erlendis er mjög líklegt …
Ef miðað er við umsvif Íslendinga erlendis er mjög líklegt að tekjur ríkissjóðs vegna tilkomu slíkra reglna yrðu í milljörðum króna. mbl.is/Kristinn

Undanfarin ár hafa lögmenn og endurskoðendur orðið þess varir að fólk er að erfa vanda sem tengist vanframtöldum eignum erlendis. Eignirnar geta numið háum fjárhæðum. Erfingjar, sem vilja koma hreint fram, hika við þar sem þá blasir við rannsókn skattrannsóknarstjóra, sektir og ef til vill saksókn.

„Með því að gefa kost á skattagriðum, a.m.k. í ákveðinn tíma, er hægt að koma þessum fjármunum hingað til lands, borga af þeim rétta skatta og álag en sleppa ákærumeðferð. Hægt væri t.a.m. að eyrnamerkja þessa fjármuni til ákveðinna verka svo sem byggingar nýs spítala,“ skrifar Vala Valtýsdóttir, lögmaður hjá Lögfræðistofu Reykjavíkur, í grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag. 

Þar fjallar hún um vanframtaldar eignir erlendis, t.d. í félögum á svokölluðum lágskattasvæðum.

„Vegna þessa er mögulegt að ekki hafi verið greiddur auðlegðarskattur og/eða fjármagnstekjuskattur af slíkum eignum og því hefur ríkissjóður orðið af verulegum tekjum. Opinber umræða hér á landi hefur verið í þá veru að beita ýtrustu refsingum vegna vanframtalinna eigna,“ skrifar Vala.

Vala Valtýsdóttir, lögmaður hjá Lögfræðistofu Reykjavíkur.
Vala Valtýsdóttir, lögmaður hjá Lögfræðistofu Reykjavíkur. mbl.is/Árni Sæberg

Nágrannaríkin hafa flest sett sér reglur um mildari málsmeðferð

Hún bendir á, að önnur nágrannaríki Íslands hafi flest sett sér reglur um mildari málsmeðferð ef um sé að ræða endurupptöku skatta að frumkvæði skattaðila. Hún segir það koma á óvart að ekki hafi komið fram frumvörp til laga á Íslandi í þessa veru og að Ísland sé annað af tveimur ríkjum sem úttekt OECD nái til sem ekki hafa sett neins konar reglur um skattagrið. „Meira að segja öll hin Norðurlöndin hafa sett sér slíkar reglur.“

Vala segir að alla jafna fjalli skattagriðareglur um það þegar skattyfirvöld bjóða skattaðilum sem hafa ekki talið rétt fram að leiðrétta skattskil sín undir sérstökum skilmálum. Ef vandað sé til verka við innleiðingu slíkra reglna njóti allir þátttakendur afrakstursins – óskilvísir skattagriða-skattgreiðendur, skilvísir skattgreiðendur og ríkissjóður.

„Í skattagriðum felst almennt að mál sem alla jafna er vísað til skattrannsóknar og/eða til opinberrar sakamálameðferðar eru afgreidd eða leidd til lykta hjá skattyfirvöldum með álagi,“ skrifar Vala. 

Hún segir að frumkvæði skattaðila til leiðréttinga á skattskilum leiði almennt ekki til saksóknar og refsikennd viðurlög séu almennt vægari að því gefnu að uppruni teknanna hafi ekki verið með ólögmætum hætti.

Lúxemborg er á meðal þeirra lágskattasvæða þar sem Íslendingar eiga …
Lúxemborg er á meðal þeirra lágskattasvæða þar sem Íslendingar eiga fjármuni. mbl.is/Ómar

Lítill kostnaður fellur á ríkið við öflun þessara tekna

„Kostir þess að lögleiða skattagriðareglur eru þeir að yfirvöld þurfa ekki að eyða ómældum tíma í rannsókn mála, þ.m.t. að afla upplýsinga frá öðrum ríkjum, heldur er vinnan lögð í hendur skattaðila sem þurfa þá að gera hreint fyrir sínum dyrum. Niðurstaðan verður því sú að lítill kostnaður fellur á ríkið við öflun þessara tekna,“ skrifar Vala. 

Í greininni segir Vala að tvær spurningar vakni hjá flestum þegar rætt sé um skattagriðareglur. Í fyrsta lagi hvað sé líklegt að það komi miklar tekjur inn í ríkissjóð. Í öðru lagi af hverju eigi að gefa fólki grið sem hafi ekki talið fram allar tekjur/eignir sínar.

Hún kveðst ekki geta svarað fyrri spurningunni nákvæmlega, en sé miðað við umsvif Íslendinga erlendis sé líklegt að tekjur ríkissjóð vegna tilkomu slíkra reglna yrðu í milljörðum króna. 

Með reglum um skattagrið er hægt að koma fjármunum til Íslands

Þá segir Vala að mörg svör séu við seinni spurningunni og sjálfsagt ekkert þeirra rétt eða tæmandi.

„Það er þó vert að hafa í huga að lögmenn og endurskoðendur hafa undanfarin ár orðið þess varir að fólk er að erfa vandann ef svo má að orði komast. Svo dæmi sé tekið þá kemur í ljós við dánarbússkipti að umboðslaun hafi verið lögð inn á reikning í Lúxemborg í áratugi og þar séu nú hundruð milljóna króna. Erfingjar vilja koma hreint fram en hika við þar sem þá blasir við rannsókn skattrannsóknarstjóra, sektir og ef til vill saksókn, þannig að afar ólíklegt er að sú leið verði farin. Með því gefa kost á skattagriðum, a.m.k. í ákveðinn tíma, er hægt að koma þessum fjármunum hingað til lands, borga af þeim rétta skatta og álag en sleppa ákærumeðferð. Hægt væri t.a.m. að eyrnamerkja þessa fjármuni til ákveðinna verka svo sem byggingar nýs spítala.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert