Tveggja ára fangelsi fyrir kynferðisbrot

mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Hæstiréttur staðfesti í dag tveggja ára fangelsisdóm Héraðsdóms Reykjavíkur yfir karlmanni fyrir kynferðisbrot gegn konu sem kom til hans í nudd. Var maðurinn, Sverrir Hjaltason, sakfelldur meðal annars fyrir að hafa stungið fingri inn í leggöng konunnar á meðan á nuddinu stóð.

Fram kemur í dómi héraðsdóms að konan hafi leitað til Sverris, sem er íþróttanuddari að mennt, vegna eymsla í mjóbaki í júlí 2012. Hún hafi farið úr öllu nema nærbuxum og fyrst legið á maganum en síðan snúið sér á bakið. Sverrir hafi meðal annars nuddað á henni brjóstin og síðan meðal annars komið við skapabarma hennar og loks stungið fingri inn í leggöng hennar.

Konan hafi þá sagt Sverri að hætta sem hann hafi gert og eftir það aðeins nuddað höfuð hennar. Konan hafi klárað nuddtímann en að hennar sögn fraus hún og vissi ekki hvað annað hún ætti að gera. Sverrir rukkaði ekki fyrir tímann en konan fór í kjölfarið á neyðarmóttökuna á Landspítalanum. Sverrir var handtekinn daginn eftir af lögreglunni.

Dæmt var upphaflega í málinu í héraðsdómi í september 2012 en Hæstiréttur ómerkti málið árið eftir og sendi það heim í hérað. Sverrir var ennfremur dæmdur til þess að greiða konunni 900 þúsund krónur í miskabætur með vöxtum og allan málskostnað upp á rúmlega sex milljónir króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert