Þokast í kjaradeilu tónlistarkennara

Næsti fundur í kjaradeilu Félags kennara og stjórnenda í tónlistarskólum …
Næsti fundur í kjaradeilu Félags kennara og stjórnenda í tónlistarskólum er á mánudaginn. mbl.is/Kristinn

Nýtt tilboð var lagt fram í kjaradeilu Félags kennara og stjórnenda í tónlistarskólum og Sambandi íslenskra sveitarfélaga á fundi ríkissáttasemjara í gær. Nokkru hefur miðað í samningaviðræðum en samningar við félagið hafa verið lausir frá 1. nóvember 2015 eða í 411 daga. Næsti fundur í kjaradeilunni verður á mánudaginn 19. desember kl. 11. Það verður 18. fundur ársins hjá ríkissáttasemjara. 

„Okkur finnst vera kominn umræðugrundvöllur fyrir frekara samtali á milli okkar,“ segir Dagrún Hjartardóttir, starfandi formaður Félags kennara og stjórnenda í tónlistarskólum, um tilboðið. Hún segir að samninganefnd félagsins vinni nú að því að fara yfir samninginn og verður sú vinna lögð fram á næsta fundi. Hún segist nokkuð bjartsýn á áframhaldandi samningaviðræður. Spurð út nýja tilboðið segist hún ekki tjáð sig um samninginn frekar.

Inga Rún Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga, tekur í sama streng. Hún segir að markmið sveitarfélaganna sé að sambærileg og jafnverðmæt störf séu launuð með sama hætti. Spurð hvort tilboðið sem lagt var fram í gær sé svipað nýjum kjarasamningi grunnskólakennara, vísar hún til þess að kjarasamningar stéttanna séu ólíkir, en miðað sé við að ná jafnstöðu í launum milli tónlistarskólakennara, grunnskólakennara og leikskólakennara.

Hafa gert 62 kjarasamninga af 63   

Samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur lokið gerð kjarasamninga við 62 af 63 viðsemjendum sambandsins í þessari samningalotu. Félag kennara og stjórnenda í tónlistarskólum er eina stéttarfélagið enn er ósamið við. Í Félaginu eru um 500 kennarar. „Sérstaðan við þessar viðræður með hliðsjón af kjaraviðræðum við önnur stéttarfélög er hversu mjög þær hafa dregist á langinn,“ segir Inga Rún og bætir við að áfram verði haldið að reyna að ná samningum. 

Í febrúar á þessu ári var skrifað undir nýjan kjarasamning við Félag íslenskra hljómlistarmanna (FÍH) sem eru hagsmuna- og fagfélag atvinnuhljómlistarmanna á Ísland. Að sögn Ingu Rúnar er um þriðjungur starfandi tónlistarkennara í FÍH. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert