Unnur Birna á hæsta tindi

Jethro Tull. Unnur Birna Björnsdóttir, fiðluleikari og söngvari, með Ian …
Jethro Tull. Unnur Birna Björnsdóttir, fiðluleikari og söngvari, með Ian Anderson og hljómsveit á jólatónleikunum í Hallgrímskirkju. Ljósmynd/James Anderson

Söngkonan og fiðluleikarinn Unnur Birna Björnsdóttir kom fram í rokkóperu Ians Anderson og Jethro Tull, hljómsveitar hans, í Frankfurt í Þýskalandi fyrir skömmu. Á fyrri yfir 100 sýningum Jethro Tull the Rock Opera hafði hún aðeins verið með á stórum skjá og því var þetta alveg ný reynsla.

„Þetta var æðislegt, mjög skemmtileg upplifun,“ segir Unnur, sem spilaði fyrst á fiðlu með Ian Anderson á tónleikum í Háskólabíói 2009. Síðan spilaði hún og söng á tónleikum með honum í Hörpu, Hofi á Akureyri 2013 og á jólatónleikum í Hallgrímskirkju á dögunum.

Unnur Birna segir að þau hafi haldið sambandi frá fyrstu kynnum og þegar hann hafi ákveðið að skrifa þessa óperu um landbúnaðarfrumkvöðulinn Jethro Tull hafi hann fengið sig til þess að fara með hlutverk eiginkonu Tulls. „„Hvers vegna valdirðu mig?“ spurði ég hann og þá svaraði hann því til að sér fyndist enski hreimurinn minn svo skemmtilegur!“ segir Unnur. Í kjölfarið fór hún í upptökur til London fyrir um einu og hálfu ári og hefur síðan verið heima og fylgst með ferðalagi óperunnar um heiminn, þar sem hún hefur verið með í för á risastórum skjá. „Ég spila bara á fiðlu í einu lagi en syng önnur lög.“

Unnur Birna Björnsdóttir.
Unnur Birna Björnsdóttir.

Mikil reynsla

Þátttaka Unnar í óperunni hefur verið mikil reynsla. Hún rifjar upp að áður en rokkóperan var tilbúin hafi hún samið lag og gert myndband með því. Það hafi verið notað sem upphitunaratriði fyrir tónleikana. Upptökurnar fyrir óperuna hafi síðan verið sérstakar en tónleikarnir í Frankfurt hafi slegið allt út. „Þeir eru það stærsta sem ég hef gert hingað til,“ segir hún og leggur áherslu á hvað vinnan sé fjölbreytt og skemmtileg, en ekki er langt síðan hún tók upp plötu með Fjallabræðrum í Abbey Road-hljóðverinu í London. „Einn daginn spila ég á elliheimilinu í Hveragerði og skömmu síðar er ég komin upp á stórt svið með Ian Anderson í óperunni í Frankfurt.“

Unnur segir að þátttakan í óperunni hafi vakið athygli á sér erlendis. Hún fái aðdáendabréf víða að og hafi liðið eins og stórstjörnu í Frankfurt. „Þegar ég steig á sviðið trylltist troðfullur salurinn og það var undarleg tilfinning,“ segir hún. Bætir við að hún hafi haft allt til alls og stjanað hafi verið við hana. „Einn maður hafði það hlutverk að fara út í búð fyrir mig. Tæknimennirnir höfðu unnið með mér í fjarlægð og allt í einu var ég, „stjarnan“, með þeim. Ég skrifaði textabrot á blað og það var límt á gólfið og maðurinn sem það gerði bað síðan um að fá að eiga það til minningar. Ég áttaði mig ekki alveg á þessu enda bara í vinnunni og þetta eru bara venjulegir karlar eins og aðrir, Ian Anderson líka.“

Óperan verður gefin út á mynddiski eftir áramót og voru upptökur á tónleikunum í gömlu óperunni í Frankfurt. Þess vegna var Unnur með og tók nokkur lög á sviðinu. Hún er sjálf að undirbúa útgáfu eigin plötu, sem kemur út snemma á næsta ári. „Þegar óperan kemur út verður gott að eiga eigið efni aðgengilegt vegna þess að þetta styður hvað annað og ég held áfram að spila og syngja með Ian Anderson í næsta verkefni. En næst er það gigg með hljómsveitinni minni Swing Kompaníinu á Café Rósenberg á Þorláksmessu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert