Dæmdur fyrir kynferðisbrot í sundi

Frá Laugardalslaug.
Frá Laugardalslaug.

Karlmaður var í dag dæmdur í tveggja mánaða fangelsi og til að greiða eina milljón í miskabætur fyrir kynferðisbrot með því að hafa í desember fyrir tveimur árum í heitum potti í Laugardalslaug brotið gegn blygðunarsemi tveggja stráka sem voru 17 ára með því að viðhafa við þá kynferðislegt tal. Þá áreitti hann annan strákinn kynferðislega með því að toga í buxnastreng á sundbuxum hans að framanverðu.

Karlmaðurinn lýsti því þannig að hann og strákarnir hafi verið í gamnislag, en í niðurstöðu dómsins segir að það verði ekki séð af myndskeiði í öryggismyndavél. Það sýni hins vegar að annar strákurinn hræðist manninn og er lýsing strákanna talin trúverðug.

Bæðir karlmaðurinn og annars strákurinn höfðu þekkst í um eitt ár, en báðir höfðu verið fastagestir í Laugardalslaug á svipuðum tíma og stundað heitu pottana. Lýsti strákurinn því að umrætt kvöld hafi hann og annar strákur verið í heita pottinum ásamt karlmanninum. Í framhaldi af samræðum þeirra hafi maðurinn spurt strákana „hvort hann ætti að taka þá í rassgatið“ og hafi það ekki verið sagt í neinu gríni. Sagði strákurinn að þeim hafi verið brugðið við þessi orð og þegar maðurinn færði sig að þeim hafi þeir reynt að forða sér. Þá hafi maðurinn reynt að snerta kynfæri hans með því að setja hönd inn fyrir sundbuxur hans en ekki tekist þar sem strákurinn var í tvennum sundbuxum.

Strákurinn komst svo frá manninum í annarri atrennu. Sagði hann fyrir dómi að hann hafi með engum hætti boðið upp á þessa framkomu sem hann hafi upplifað sem kynferðislega.

Starfsmaður sundlaugarinn bar fyrir dómi að hann hafi orðið þess áskynja að strákunum hefði verið brugðið, en þeir hafi verið fastagestir í sundlauginni og hann þekkt þá vel. Þeir hafi aftur á móti verið ólíkir sjálfum sér þetta kvöld.

Sem fyrr segir var maðurinn dæmdur í 2 mánaða skilorðsbundið fangelsi og til að greiða stráknum sem hann greip til 600 þúsund krónur í miskabætur og hinum 400 þúsund krónur.

Maðurinn hafði einnig verið ákærður fyrir brot gegn barnaverndarlögum þar sem strákarnir voru undir 18 ára aldri þegar brotið áttu sér stað. Var maðurinn sýknaður af því þar sem dómurinn taldi ekki hægt að slá því föstu að maðurinn hafi vitað að strákarnir væru undir 18 ára aldri þegar brotið átti sér stað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert