Þingstörfin einkennast af átökum og hafa lítið breyst

Haukur Arnþórsson, dr. í rafrænni stjórnsýslu.
Haukur Arnþórsson, dr. í rafrænni stjórnsýslu. mbl.is/Ernir

Sterk vísbending er um að störf þingsins hafi lítið sem ekkert breyst á síðustu 24 árum. Þingstörfin einkennast af átökum sem eru föst í ákveðnu fari og spilla tímastjórnun og stjórn dagskrár. Þá eru ábendingar um að gæðum lagasetningar sé ábótavant. Þetta kemur meðal annars fram í grein Hauks Arnþórssonar, doktors í rafrænni stjórnsýslu, sem nefnist „Þingstörf Alþingis 1991-2015. Kyrrstaða í breyttu umhverfi“ og kemur út í hausthefti veftímaritsins Stjórnmál og stjórnsýsla sem opnar í dag. Í greininni er skoðað málþóf og veikt skipulag í þingstörfum á Alþingi á síðustu 24 árum í ljósi fræðikenninga um þjóðþing og um samfélagsleg áhrif netsins og breytts ytra og innra umhverfis þingsins.

Á þessu 24 ára tímabili hefur málþófið verið með svipuðum hætti og það sama á við um afköst þingsins á lagasetningu. „Málþófið einkennist af því að lítið skipulag er á þingfundum og þingstörfum þannig að þingmenn geta tekið til máls og spillt tíma þingsins nokkurn veginn þegar þeir vilja,“ segir Haukur.

Lítið skipulag er á málsmeðferðinni yfirleitt innan þingsins, að sögn Hauks. Þegar mál er lagt fyrir þingið er ekki skipulag um hvernig það verður tekið fyrir, hvað það fær mikla athygli o.s.frv. „Öll þessi aðstaða gerir það að verkum stjórnarandstaðan og ríkisstjórnin geta endurraðað dagskrá þingsins þegar þeim hentar,“ segir Haukur.

Sterk ábending er um að störf þingsins hafi lítið sem …
Sterk ábending er um að störf þingsins hafi lítið sem ekkert breyst á síðustu 24 árum. mbl.is/Styrmir Kári


Hann bendir á að mál komast fyrst og fremst í gegnum þingið ef þau fá stutta málsmeðferð og ef þau eru lögð seint fram. Að meðaltali eru fluttar sex klukkustanda langar ræður í þinginu fyrir hver lög sem eru sett fram. Flest frumvörp til laga eru afgreidd á vorin, þegar þingið er að ljúka störfum, og samningar nást við stjórnarandstöðuna. Jafnvel eru dæmi um að tugir mála hafi verið afgreiddir á vorin á tveimur dögum. „Öll þessi vinnubrögð gætu leitt til þess að gæði lagasetninga sé ófullnægjandi,“ segir Haukur.

Á sama tíma og störf þingsins hafa í raun lítið sem ekkert breyst hafi ytra umhverfi breyst mikið og vísar Haukur til krafna nútímans um vönduð vinnubrögð, skilvirkni og málefnalega, hnitmiðaða og skiljanlega umræðu sem eru orðnar háværar.

Hér er hægt að skoða greinina í heild. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert