Gekk daglega í gegnum torgið

Vettvangur árásarinnar eftir að vörubíll keyrði á miklum hraða á …
Vettvangur árásarinnar eftir að vörubíll keyrði á miklum hraða á jólamarkað í Berlín. AFP

Ég bjó rétt hjá þessu torgi allan síðasta vetur og labbaði í gegnum það á hverjum degi á leiðinni í ræktina og í matvöruverslun,“ segir Sölvi Þór Hannesson sem búsettur er í Berlín, höfuðborg Þýskalands, í samtali við mbl.is. Hann er sjálfur staddur í jólaleyfi á Íslandi og var því ekki í Berlín þegar vörubifreið var ekið inn í jólamarkað í borginni í gærkvöldi. Hann þekkir hins vegar vel til þess staðar þar sem hryðjuverkið var framið.

Sölvi hefur hins vegar verið í sambandi við vini sína í Berlín í kjölfar árásarinnar og segist mjög þakklátur fyrir að samfélagsmiðillinn Facebook skuli bjóða fólki upp á að láta vita af því að það sé öruggt við aðstæður sem þessar þrátt fyrir að vera annars ekki sérlega hrifinn af miðlinum. Fyrir vikið hafi hann getað látið vini sína vita að hann væri í jólafríi á Íslandi. Eins hafi hann getað kannað með vini sína með sama hætti sem séu harmi slegnir.

Sölvi Þór Hannesson sem búsettur er í Berlín.
Sölvi Þór Hannesson sem búsettur er í Berlín. Mynd/Sölvi Þór

„Auðvitað eru vinir mínir harmi slegnir, en ég hef samt ekki heyrt mikið í þeim, enda eru unga fólkið í Berlín ekki nærri því eins virkt á samfélagsmiðlum eins og við Íslendingar og það þykir að mörgu leyti hallærislegt,“ segir Sölvi. Það hafi því komið honum nokkuð á óvart hversu margir af vinum hans hefðu nýtt Facebook til þess að láta vita af sér. Spurður áfram um staðinn þar sem hryðjuverkið var framið segir Sölvi hann algera ferðamannamiðstöð.

„Þetta torg er algjör túristamiðstöð, umkringt af frægum dýragarði, Kudamm verslunargötunni, lystigarði, Zoo Palast bíóhúsinu og hundruðum verslana og hótela. Síðan er minningarkirkjan á torginu sjálfu ásamt þessum vinsæla jólamarkaði. Torgið er einnig umkringt mjög umferðarþungum götum og það kemur mér í sjálfu sér aðeins á óvart að maðurinn skyldi geta náð svona mikilli ferð þarna, á svona stórum trukk.“

Markaðurinn er við Kaiser-Wilhelm minningarmirkjuna í Berlín.
Markaðurinn er við Kaiser-Wilhelm minningarmirkjuna í Berlín. AFP

Sölvi segir að öryggisgæsla sér oft mjög mikil á þessum stað. Sérstaklega í kjölfar hryðjuverkaárásarinnar í París. Þegar Berlinale átti -kvikmyndahátíðin hafi verið haldin í bíóhúsinu við torgið hafi því verið alfarið lokað úr öllum áttum af mjög fjölmennu lögregluliði. „Þannig að stjórnvöld voru alveg meðvituð um að þetta gæti verið mögulegur árásarstaður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert