Ljósið og vonin að leiðarljósi

Jóhanna María Eyjólfsdóttir formaður PIETA samtakanna á Íslandi.
Jóhanna María Eyjólfsdóttir formaður PIETA samtakanna á Íslandi. mbl.is/Árni Sæberg

Sjálfsvígsforvarnarsamtökin Pieta Ísland standa fyrir Vetrarsólstöðugöngu um miðnætti í kvöld í minningu þeirra sem hafa tekið eigið líf. Komið verður saman í húsnæði Kynnisferða við Klettagarða kl. 23 þar sem boðið verður uppá veitingar og stutta dagskrá. Á miðnætti eða kl. 23:59 verður gengin blysför út að Vitanum við Skarfagarð þar sem aðstandendum gefst tækifæri til að rita nöfn ástvina og kveðjur á vegg Vitans. Nöfnin munu standa á Vitanum yfir jól og áramót til minningar og sem tákn um von og samstöðu með öllum þeim sem lifa í myrkri þungra hugsana og uppgjafar.

Þetta er í fyrsta sinn sem samtökin standa fyrir Vetrarsólstöðugöngu en í sumar stóðu samtökin fyrir göngu til að vekja athygli á sjálfsvígum og sjálfskaða. Gengið var úr myrkrinu í ljósið í Laugardalnum. Í henni tóku um 300 manns þátt og fór hún fram samtímis í fjórum heimsálfum.

Fréttmbl.is: 300 manns gengu gegn sjálfs­víg­um

Samtökin Pieta Ísland starfa að írskri fyrirmynd.
Samtökin Pieta Ísland starfa að írskri fyrirmynd. mbl.is/Ófeigur

„Þegar við fórum í fyrstu gönguna okkar í sumar sáum við hvað það var mikil þörf hjá fólki að koma saman og finna samstöðu. Sjálfsvíg ástvina er málefni sem liggur oft í þagnargildi,“ segir Jóhanna María Eyjólfsdóttir, formaður PIETA samtakanna á Íslandi. Hún bendir á að gangan í ár verði táknræn því hún fer fram á miðnætti á vetrarsólstöðum þegar dagsbirtan er minnst og dagurinn lengist á nýjan leik aftur. Samtökin hafa ljósið og vonina að leiðarljósi. 

Jóhanna María býst við að töluverður fjöldi eigi eftir að mæta í Vetrarsólstöðugönguna og vísar til þess að þátttakan í göngunni í sumar hafi farið fram úr björtustu vonum. Hún bendir á að þrátt fyrir að jólin séu gleðilegur tími þá reynist hann einnig mörgum erfiður.   

Hluti af stjórn Pieta Ísland, tv. Auður Axelsdóttir, Sigríður Ásta …
Hluti af stjórn Pieta Ísland, tv. Auður Axelsdóttir, Sigríður Ásta Eyþórsdóttir, Björk Jónsdóttir, Jóhanna María Eyjólfsdóttir, Snædís Ögn Flosadóttir, Bjarni Karlsson og Lára Björnsdóttir. Á myndina vantar: Benedikt Þór Guðmundsson,Ellen Kristjánsdóttur, Sigrúnu Höllu Tryggvadóttur.

Samtökin stofnuð að írskri fyrirmynd

Pieta Ísland voru stofnuð í upphafi ársins og starfa að írskri fyrirmynd, PietaHouse. Pieta Ísland mun á næsta ári opna nýtt úrræði í sjálfsskaða- og sjálfsvígsforvörnum, fyrir einstaklinga í vanda og aðstandendur þeirra. Hafin er formleg söfnun á meðal almennings fyrir Pietahúsi sem mun hýsa starfsemina og bjóða uppá ókeypis þjónustu og eftirfylgd í samstarfi við þá þjónustu sem fyrir er hérlendis. Jafnframt verður veitt forvarnarfræðsla út í samfélagið og eftirfylgd í kjölfar áfalla.

Jóhanna María segist vongóð um að nægilegt fjármagn eigi eftir að safnast til að hefja starfsemina og halda henni gangandi. „Við finnum fyrir miklum velvilja í samfélaginu og margir vilja styðja við samtökin,“ segir Jóhanna. Hún bendir meðal annars á stuðning frá kiw­an­is­hreyf­ing­unni.   

Árlega reyna á milli 5-600 manns að taka eigið líf og 30-50 deyja af völdum sjálfsvíga, að sögn Jóhönnu Maríu. Í fyrra féllu 44 fyrir eigin hendi eða 33 karlar og 11 konur, samkvæmt tölum frá Embætti landlæknis. Það er nákvæmlega sami fjöldi og framdi sjálfsvíg árið 2014 en árið 2013 voru þau fleiri eða 49 talsins.

Söfnunarsími fyrir samtökin er virkur. 

Hér er hægt að sjá facebook-síðu viðburðarins. 

Frá göngunni í sumar sem var til að vekja athygli …
Frá göngunni í sumar sem var til að vekja athygli á sjálfsvígum og sjálfskaða.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert