Fyrstu samkynja hjónin þjóna saman

Sr. Sjöfn Jóhannesdóttir, Hrafnhildur Eyþórsdóttir og Stefanía Steinsdóttir þjónuðu saman …
Sr. Sjöfn Jóhannesdóttir, Hrafnhildur Eyþórsdóttir og Stefanía Steinsdóttir þjónuðu saman í nýársmessu í Hofskirkju í Álftafirði. Ljósmynd/aðsend

Hjónin Stefanía Steinsdóttir guðfræðinemi og Hrafnhildur Eyþórsdóttir djákni þjónuðu saman með sóknarprestinum sr. Sjöfn Jóhannesdóttur í hátíðarguðsþjónustu í Hofskirkju í Álftafirði á nýársdag. Ekki er vitað til að það hafi gerst áður í íslenskri kirkjusögu að samkynja hjón sjái um þjónustu í kirkjunni.

„Þetta var bara mjög hátíðleg og góð stund,“ segir Hrafnhildur í samtali við mbl.is en guðsþjónustan var vel sótt og var kirkjan nánast fullsetin. Þær Stefanía kynntust í guðfræðináminu og giftu sig á Akureyri í sumar.

Hrafnhildur er frá Eyjólfsstöðum í Fossárdal sem er í Djúpavogsprestakalli og er smiður, hjúkrunarfræðingur og vígður djákni. Hún starfar nú sem hjúkrunarfræðingur á gjörgæsludeild Landspítalans. Stefanía er líftæknifræðingur og er frá Myrká í Hörgársveit og lýkur guðfræðiprófi frá Háskóla Íslands í vor.

Aldrei mætt fordómum í þjóðkirkjunni

„Ég er náttúrlega héðan úr sveitinni og presturinn hún Sjöfn bað okkur bara um að vera með,“ segir Hrafnhildur. Hún segir algengt að hjón þjóni saman en þetta er í fyrsta sinn í sögu kirkjunnar sem hjón af sama kyni þjóna í sömu messunni.

Þær segjast aldrei hafa mætt fordómum innan kirkjunnar vegna kynhneigðar sinnar en að sögn Hrafnhildar er það algengur misskilningur að kirkjan sé á móti samkynhneigð. „Nei, alls ekki, það skiptir ekki nokkru máli. Við höfum aldrei mætt því innan þjóðkirkjunnar,“ útskýrir Hrafnhildur og Stefanía tekur í sama streng. 

„Við giftum okkur til dæmis í Akureyrarkirkju núna í ágúst og það var dómkirkjupresturinn í Reykjavík sem gifti okkur,“ bætir Hrafnhildur við. „Ég held að þetta sé bara út á við sem fólk heldur að kirkjan sé á móti samkynhneigð, en kirkjan er það í rauninni ekki.“

Brutu blað í sögu kirkjunnar

Það hafði ekki hvarflað að þeim fyrir guðsþjónustuna að nokkuð merkilegt væri við hana, ekki fyrr en séra Sjöfn vakti á því athygli. „Mér fannst það bara aðallega skondið þegar Sjöfn sagði; heyrðu, við erum bara að brjóta blað hérna í sögu kirkjunnar,“ segir Hrafnhildur en hún á von að þetta verði svo sannarlega ekki í síðasta skipti sem þær þjóni saman. 

„Við eigum örugglega eftir að þjóna oftar saman, það er bara alveg pottþétt. Sérstaklega þegar og ef Stefanía fær embætti, hún er að klára í vor og þá ætla ég rétt að vona að hún leyfi mér að vera með í guðsþjónustunni stundum þegar hún er orðin prestur,“ segir Hrafnhildur og hlær. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert