Stjórnvöld treysti stöðu og framtíð fjölmiðla

Unnið í prentsmiðju Morgunblaðsins.
Unnið í prentsmiðju Morgunblaðsins. mbl.is/Ómar

„Nauðsynlegt er að stjórnvöld taki af skarið og marki stefnu um það hvernig unnt er að treysta stöðu og framtíð íslenskra fjölmiðla áður en það er orðið of seint. Íslenskir fjölmiðlar eru grunnurinn að því að viðhalda lýðræði, menningu og samheldni íslenskrar þjóðar.“ 

Þetta segir Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri Fjölmiðlanefndar, í pistli sínum í ársskýrslu stofnunarinnar sem birt var nú fyrir jólin, og fjallað er um á vef Blaðamannafélags Íslands. 

Fram kemur, að Elfa bendi á að fjölmiðlar um víða veröld standi á tímamótum og fjárhagsstaða þeirra, jafnt einkarekinna miðla sem ríkismiðla, sé erfið. Á sama tíma segir hún hlutverk þeirra sérstaklega mikilvægt  mikilvægt í nútíma samfélagi.

„Á sama tíma hafa fjölmiðlar sem hafa gildi faglegrar blaðamennsku að leiðarljósi, hvort heldur einkareknir eða ríkisreknir, sjaldan verið eins mikilvægir og á öld hinna röngu og misvísandi upplýsinga. Ábyrgð þeirra við að miðla hlutlægum fréttum og menningartengdu efni er mikil. Fjölmiðlar eiga að miðla efni sem upplýsir og stuðlar að samfélagslegri umræðu, efni sem menntar, fræðir og hvetur til gagnrýninnar hugsunar. Þeir eiga jafnframt að miðla sögu, listum og menningu og ýmiskonar afþreyingu.“

Ársskýrsla Fjölmiðlanefndar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert