Sigrún líkleg til að setjast á þing

Sigrún Gunnarsdóttir er þriðji maður á lista hjá Bjartri framtíð …
Sigrún Gunnarsdóttir er þriðji maður á lista hjá Bjartri framtíð í Suðvesturkjördæmi.

Segi einn eða fleiri þingmenn Bjartrar framtíðar af sér þingmennsku til að setjast á ráðherrastól, verður að teljast líklegt að Sigrún Gunnarsdóttir, hjúkrunarfræðingur og formaður Krabbameinsfélags Íslands, muni setjast á þing.

Þingflokkur Bjartrar framtíðar hefur einungis á að skipa fjórum þingmönnum og setjist tveir þeirra á ráðherrastól munu einungis tveir þeirra geta tekið sæti í nefndum þingsins. Fréttablaðið greindi frá því í vikunni að rætt hafi verið um að ráðherrar flokksins afsali sér þingmennsku til að fjölga flokksmönnum í stjórnarliðinu.

Sigrún er þriðja á lista Bjartrar framtíðar í Suðvesturkjördæmi, en þar sem bæði þau Óttarr Proppé og Theodóra S. Þorsteinsdóttir eru þingmenn flokksins í kjördæminu, verða líkur Sigrúnar að teljast nokkuð góðar. Sigrún var varaþingmaður í Reykjavíkurkjördæmi suður á síðasta kjörtímabili og er því ekki að setjast á þing í fyrsta sinn.

Karólína Helga Símonardóttir verkefnastjóri er annar maður á lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður, þar sem Björt Ólafsdóttir náði kjöri fyrir flokkinn, og kann því einnig að rata á þing á næstunni.

Þá er varaborgarfulltrúinn Eva Einarsdóttir önnur á lista í Reykjavíkurkjördæmi suður á eftir Nicole Leigh Mosty sem settist ný á þing nú í haust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert