Þrjú og hálft ár fyrir gróft ofbeldi

Um þrjár atlögur var að ræða á tæplega mánaðar löngu …
Um þrjár atlögur var að ræða á tæplega mánaðar löngu tímabili. mbl.is/G.Rúnar

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann á fertugsaldri í þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir heimilisofbeldi gagnvart sambýliskonu sinni. Hann er m.a. sakfelldur fyrir líkamsárásir, hótanir, ólögmæta nauðung og nauðgun. 

Maðurinn, sem er fæddur árið 1982, er ennfremur dæmdur til að greiða konunni þrjár milljónir króna í miskabætur.

Dómur héraðsdóms féll í gær. Þar segir, að brotin hafi beinst gegn sambýliskonu hans á heimili þeirra en um þrjár atlögur var að ræða á tæplega mánaðar löngu tímabili árið 2014.

„Um var að ræða alvarleg brot, sem sum vörðu um lengri tíma, og beindust þau að líkama konunnar, frjálsræði og friðhelgi einkalífs hennar. Verður talið að með háttseminni hafi ákærði móðgað og smánað brotaþola í orði og athöfnum, svo að varði hann refsingu,“ að því er segir í dómnum.

Beitti konuna grófu ofbeldi

Ríkissaksóknari ákærði manninn í ágúst í fyrra en ákæran var í þremur liðum. Í fyrsta lið ákærunnar var maðurinn sakaður um að líkamsárás og hótanir, með því að hafa á tímabilinu frá fimmtudeginum 27. mars og fram yfir miðnætti föstudaginn 28. mars, ítrekað veist að sambýliskonu sinni með ofbeldi. Hann tók konuna meðal annars kverkataki í þrjú skipti og herti að þannig að hún átti erfitt með andardrátt, dró hana ítrekað á hárinu og höndum um íbúðina þannig að líkami hennar slóst utan í innanstokksmuni og hurðakarma og henti henni í rúm í svefnherbergi þannig að höfuð hennar slóst í vegginn. Þá hótaði maðurinn henni ítrekað lífláti. 

Í öðrum lið ákærunnar var maðurinn sakaður um líkamsárás, ólögmæta nauðung og hótanir, með því að hafa aðfaranótt fimmtudagsins 3. apríl veist að konunni í svefnherbergi íbúðarinnar, bundið hana við rúmið og hótað því að selja nafngreindum mönnum aðgang að henni. Stuttu síðar losaði hann konuna en tók upp rakvélarblað og hótað að skera hana og jafnframt hótaði henni lífláti og þrisvar sinnum tekið hana hálstaki en haft sæng á milli. Auk þessa dró maðurinn konuna á hárinu um íbúðina og inn á bað þar sem hann henti henni í gólfið, setti hnéð í bringu hennar og hótaði að raka af henni allt hárið.

Í þriðja lið ákærunnar er maðurinn sakaður um líkamsárás, hótanir og nauðgun, með því að hafa aðfaranótt föstudagsins 25. apríl veist að sambýliskonu sinni þar sem hún var í baði, ýtt henni þrisvar sinnum í kaf og haldið henni í kafi í þó nokkurn tíma. Þá reif maðurinn hana upp úr baðinu og niður á gólf þannig að hún lenti með bakið og höfuðið á baðherbergisgólfinu og dró hana svo inn í svefnherbergi þar sem hann tók upp hamar og hótaði að drepa konuna ef hún gæfi frá sér hljóð en nágranni hafði á þessum tíma bankað á útidyrahurð. Eftir að maðurinn fór til dyra og ræddi við nágrannann, sem síðan fór, hafði hann samfarir við sambýliskonuna gegn hennar vilja með ólögmætri nauðung en konan þorði ekki annað en að láta að vilja mannsins vegna ofbeldis og hótana sem hann hafði beitt hana stuttu áður. 

Konan óttaðist um líf sitt

Í fjórða lið ákærunnar var maðurinn sakaður um stórfelldar ærumeiðingar, með því að hafa með þeirri háttsemi sem lýst er í ákæruliðum 1 til 3, ítrekað móðgað og smánað konuna.

Við aðalmeðferð málsins neitaði maðurinn alfarið sök.

Fjölskipaður héraðsdómur komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að maðurinn væri sekur hvað varðar alla ákæruliði. Segir m.a. í dómnum að  konunni hefði staðið mikil ógn af manninum og óttast um líf sitt á meðan á atlögum hans stóð. Hann var því ennfremur dæmdur til að greiða henni þrjár milljónir króna í miskabætur. Þá var manninum gert að greiða 2,3 milljónir í lögmannskostnað og 114.000 kr. í sakarkostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert