„Mjög nauðsynlegur stuðningur“

Íslendingar safna fyrir Færeyjar.
Íslendingar safna fyrir Færeyjar. mbl.is/Sigurður Bogi

„Þetta er mjög nauðsynlegur stuðningur og miðað við það sem við heyrum þá er beðið eftir honum með eftirvæntingu og þakklæti,“ segir Rakel Sigurgeirsdóttir, einn aðstandenda Færeyjasöfnunar, en lokasprettur fjársöfnunarinnar er nú um helgina. 

Markmiðið er að safna að minnsta kosti 6,7 milljónum króna í þágu björgunarsveita Færeyinga, sem svarar til þess tjóns sem björgunarsveitirnar urðu fyrir í fárviðrinu í Færeyjum um jólin. Þá skemmdust ýmis tól og tæki björgunarmanna og það tjón fæst ekki bætt, enda búnaðurinn ótryggður að sögn Rakelar.

Tæplega fimm milljónir safnast

Nú hafa tæplega fimm milljónir króna safnast og heita aðstandendur söfnunarinnar á landsmenn að bæta við tveimur milljónum króna sem upp á vantar til að ná settu marki. „Þetta er lítið land og Færeyingar hafa kannski ekki sömu fjáröflunarmöguleika og björgunarsveitirnar hér. Svo er gert ráð fyrir að Færeyingar muni standa frammi fyrir fleiri svona ofsaveðrum og þá þurfa þeir að reiða sig á björgunarsveitir sem eru vel búnar,“ segir Rakel. „Stuðningur við björgunarsveitirnar er stuðningur við alla Færeyinga.“

Fjársöfnunin fór vel af stað í lok nýliðins árs og þá söfnuðust þrjá milljónir króna á þremur sólarhringum. Verulega hægðist svo á í söfnuninni þegar greint var frá því að Færeyingar teldu sig ekki þurfa á stuðningnum að halda. „Það var óheppilegt enda ekki rétt. Þvert á móti; björgunarsveitir Færeyinga eru afar þakklátar fyrir þennan stuðning og þurfa á honum að halda,“ segir í tilkynningu frá aðstandendum söfnunarinnar.

Sendir hjartans þakkir fyrir aðstoðina

Formaður Landssambands björgunarfélaganna í Færeyjum hafi verið boðið að koma hingað til lands til að veita fénu viðtöku í byrjun febrúar og ljóst sé að Færeyingar fylgjast vel með gangi söfnunarinnar. Það megi meðal annars ráða af bréfi Aksels V. Johannessen, lögmanns Færeyja, þar sem hann óskar Bjarna Benediktssyni  forsætisráðherra til hamingju með embættið.

„Fyrir hönd færeyskra stjórnvalda og allra Færeyinga langar mig til að nota tækifærið og senda hjartans þakkir til Íslendinga sem af eigin frumkvæði buðu Færeyingum aðstoð þegar fárviðrið herjaði á landið um jólin. Það hreyfir við manni að upplifa slíka umhyggju frá okkar íslensku vinum,“ segir í bréfinu. 

Söfn­un­ar­féð verður af­hent Lands­sam­bandi björg­un­ar­fé­lag­anna í Fær­eyj­um í kring­um næstu mánaðamót og verður söfn­un­in opin fram til miðnætt­is sunnu­dag­inn 15. janú­ar. 

Frekari upplýsingar á Fésbók: Íslendingar og Færeyingar eru frændur eða viðburðinum Styðjum Færeyinga! þar sem fólk getur sett fram hlýjar kveðjur til Færeyinga.

Þeim sem vilja leggja söfn­un­inni lið er bent á reikn­ing­inn 1161 26 006000. Kt. 170961-7819.

Aðstandendur Færeyjasöfnunnar16.
Aðstandendur Færeyjasöfnunnar16. Ljósmynd/Færeyjasöfnun16
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert