Leiksýning stöðvuð eftir slæmt slys

Konan var flutt á Landspítala með sjúkrabíl en hún brotnaði …
Konan var flutt á Landspítala með sjúkrabíl en hún brotnaði á læri við fallið. mbl.is/Ómar Óskarsson

Stöðva þurfti sýningu á Gísla á Uppsölum í Þjóðleikhúsinu á föstudagskvöldið þegar öldruð kona féll niður sjö þrep. Konan hlaut lærbrot við fallið og var hún flutt með sjúkrabíl á bráðamóttöku Borgarspítalans. Aðstandendur konunnar segja starfsfólk hafa brugðist hratt og vel við.

Ari Matthíasson Þjóðleikhússtjóri segist eðlilega vera sleginn yfir atvikinu og það sé alltaf leiðinlegt þegar einhver slasi sig í Þjóðleikhúsinu. 

„En þegar það koma yfir 100 þúsund gestir á ári er viðbúið að einhver meiði sig þótt maður gæti að öllu,“ segir Ari.

Konan var á leiðinni út úr salnum á meðan á sýningu stóð þar sem hún fékk skyndilega mikið hóstakast að sögn Ara.

Ari Matthíasson Þjóðleikshússtjóri.
Ari Matthíasson Þjóðleikshússtjóri. mbl.is/Golli

„Þetta er týpískt óhappaslys,“ segir Ari, en stiginn sem konan féll niður var brattur og óupplýstur þegar slysið varð þar sem sýning var í gangi. 

„Fólk dettur alls staðar og það er kannski nokkuð sem því miður er ekki hægt að koma í veg fyrir, að fólk detti, en ef það er eitthvað sem við getum lagfært eða gert betur gerum við það,“ segir Ari. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert