Óspennandi sjúkrafæðið sem varð vinsælt

Fáir lenda í vandræðum með að nálgast grænmetisrétti í dag, …
Fáir lenda í vandræðum með að nálgast grænmetisrétti í dag, á veitingastöðum og í verslunum. Það hefur breyst hratt. mbl.is/Árni Sæberg

Harðsvíruðustu grænmetisæturnar árið 1952, eins og þær voru kallaðar í íslensku dagblaði, voru þær sem létu ekki inn fyrir sínar varir nokkurn hlut úr dýraríkinu. Þær voru kallaðar ofstækisfullar grænmetisætur og það væri varla hægt að þefa þær uppi, svo fáar væru þær. Í dag heitir að aðhyllast þennan „ofstækisfulla lífsstíl“ að vera vegan og mánuðurinn janúar er hjá mörgum veganúarmánuður þar sem Íslendingar skora á hver annan að innbyrða ekki dýraafurðir í heilan mánuð.

En það er forvitnilegt í ljósi þess hve eðlilegt það þykir orðið að halda sig við jurtafæði að skoða hvernig umræða og vitneskja um þetta mataræði hefur þróast síðustu árin, frá því að þessir einstaklingar voru kallaðir ofstækisfullir árið 1952.

Tveimur áratugum áður, í kringum 1930, hafði í Alþýðublaðinu verið skrifað um sérkennilegan flokk innflytjenda í Kanada, Doukhebora, sem voru svo dularfullir að þeir álitu það morð að borða eða drepa dýr sér til matar eða klæða og væru svo „heiðarlegir“ að þeir álitu það þjófnað að „stela“ eggjunum frá hænunum og mjólkinni úr kúnum. Þetta var ein af þessum „furðugreinum“ í dagblöðum þess tíma.

Furðufuglar og framúrstefnumenn

Það var þó á 5. áratugnum sem flestir landsmenn vissu hvað það var að halda sig við það sem kallaðist „jurtafæðið“ á þeim tíma og var það sett undir hatt svokallaðrar náttúrulækningastefnu sem Jónas Kristjánsson læknir var forsprakki að og var talinn langt á undan sinni samtíð þegar hann kynnti stefnuna fyrst á fundi Framfarafélags Sauðárkróks 1923. Náttúrulækningafélagið var svo stofnað 1937, en Jónas stóð að stofnun þess og vann hann að því alla ævi að sýna Íslendingum fram á þá kosti sem jurtafæða hafði fram yfir kjötmetið. Þeir voru þó áfram álitnir hálfgerðir furðufuglar og framúrstefnumenn sem voru grænmetisætur, hvað þá þeir sem sneiddu hjá mjólk og eggjum líka, og þetta viðhorf var áberandi fram eftir allri 20. öldinni.

Á 8. áratugnum fór að bera meira á að fólk gerðist grænmetisætur hérlendis. Áhrifa hippamenningarinnar gætti þar talsvert og erlent tónlistarfólk 7. og 8. áratuganna, sem margt hvert var grænmetisætur, hafði vafalítið áhrif. Sjaldnast var fólk þó vegan.

Sprenging varð á 9. áratugnum og grænmetisfæði var reglulegt umfjöllunarefni blaðanna, þar sem fólki var kennt að elda baunir, grænmetisætur sögðu frá lífsstíl sínum. Einhver hópur var þá á svokölluðu „makróbíótísku fæði“, þar sem uppistaðan var korn og grænmeti, og má segja að það hafi verið vegan lífsstíll.

Veitingastaðir og grænmetisbuff í verslunum

Á 9. áratugnum var einn grænmetisveitingastaður í Reykjavík, Á næstu grösum, og þá vöndu sumar grænmetisætur komur sínar í kringum 1985 á veitingastaðinn Krákuna, sem bauð upp á mexíkóska matargerð og þar á meðal nokkra grænmetisrétti. Rekstraraðilar Á næstu grösum sögðu í viðtali sem birtist í Morgunblaðinu árið 1989 að sumir væru hræddir við grænmetisréttina og héldu að þeir væru „eitthvert sjúkrafæði“.

Grænmetisveitingastöðum átti svo eftir að fara hægfjölgandi á 10. áratugnum en almennt var erfitt að nálgast grænmetisrétti á veitingastöðum. Árið 1993 lýsti Jórunn Sörensen, þáverandi formaður Sambands dýraverndunarfélaga Íslands, því hvernig það væri að vera grænmetisæta og fara út að borða á Íslandi. Diskurinn sem hún fékk þegar hún pantaði grænmetisrétt á einum fínasta veitingastað borgarinnar var svona: „Ein bökuð kartafla, einn soðinn tómatur, örfáar, soðnar, örsmáar gulrætur, eitthvað lítið og gult sem líka var notað til skreytinga og pínulítil brokkólígrein.“ Árið 1989 birtist sérstök frétt þess efnis í dagblöðum að nú fengist tilbúinn matur fyrir grænmetisætur í verslunum. „Hér er um að ræða frosin grænmetisbuff og -borgara sem aðeins þarf að hita upp í ofni eða á pönnu.“ Á þeim tíma innihéldu þó líka ýmsar „grænmetisuppskriftir“ frá íslenskum matvælaframleiðendum skinku og beikon.

Grænmetisætur urðu smám saman minna og minna furðulegar eftir því sem hópurinn stækkaði. Einn vinsælasti grænmetisveitingastaður 10. áratugarins, Grænn kostur, var opnaður 1995 og sagði Sólveig Eiríksdóttir, annar eigenda veitingastaðarins, í viðtali við Frjálsa verslun árið 1997 að strax hefði verið lagt upp með að breyta ímynd grænmetisfæðis á Íslandi. „Grænmetisfæði var í hugum margra hippakúltúr, lopapeysur, tréklossar og innhverf íhugun. Við teljum að okkur hafi tekist að setja upp veitingastað sem höfðar til mun breiðari hóps,“ sagði Sólveig, eða Solla eins og hún er jafnan kölluð, í viðtalinu árið 1997.

Þó voru afar fá dæmi um fólk sem sneiddi algjörlega hjá dýraafurðum og þetta orð, „vegan“ kom ekki sérstaklega upp sem hugtak í umræðu og skrifum hérlendis fyrr en á fyrsta áratug þessarar aldar. Í dag bjóða á annan tug veitingastaða upp á sérstaka veganrétti og á nær öllum veitingastöðum er hægt að fá grænmetisrétti. Umhverfi grænmetisæta og þeirra sem eru vegan hefur því snöggbreyst enda hefðu eflaust fáir séð fyrir sér sérstakan vegan-mánuð fyrir nokkrum árum.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert