Hafa áhyggjur af stöðu heilsugæslunnar

Hvolsvöllur.
Hvolsvöllur. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Sveitarstjórn Rangárþings eystra lýsir yfir áhyggjum sínum varðandi heilsugæslu í Rangárþingi en læknir með áratugareynslu og sérmenntun í heimilslækningum hefur sagt starfi sínu lausu við Heilsugæslu Rangárþings, en hann var í 75% starfshlutfalli sem ekki fékkst aukið. Þetta kemur fram í ályktun sem sveitarstjórnin hefur samþykkt.

„Það er áhyggjuefni þar sem erfitt gæti reynst að fá lækni til starfa í ekki hærra starfshlutfall, þar sem erfiðlega hefur gengið að manna stöður heimilislækna á landsbyggðinni eins og forstöðumenn Hsu hafa m.a. upplýst um.

Öflug heilsugæsla er hornsteinn í hverju samfélagi og mikilvægt að henni sé sinnt eins og lög gera ráð fyrir, enda á heilsugæsla að vera fyrsti viðkomustaður einstaklinga innan heilbrigðiskerfisins.  Sveitarstjórn Rangárþings eystra minnir einnig á ákvæði í sameiginlegri yfirlýsingu sveitarstjórna í Rangárþingi og forstjóra Hsu frá 1. febrúar 2016 um mikilvægi samráðs og upplýsinga til sveitarstjórna á mönnun og þjónustu starfsstöðvanna og bætta kynningu á aðgengi íbúanna að þjónustunni,“ segir ennfremur í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert