Takmarkað skyggni vegna skafrennings

mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Víða allhvöss eða hvöss suðvestanátt í dag, en slær í storm norðvestan til á landinu. Takmarkað skyggni í éljahryðjum og skafrenningi, einkum á fjallvegum, segir í viðvörun frá veðurfræðingum Veðurstofu Íslands.

Það eru hálkublettir og éljagangur á Reykjanesbraut og á höfuðborgarsvæðinu. Hálka er á Hellisheiði og hálka eða hálkublettir mjög víða á Suðurlandi.

Á Vesturlandi er hálka eða hálkublettir á flestum leiðum. Hálka, hálkublettir eða snjóþekja eru á vegum á Vestfjörðum og éljagangur. Það er hvasst og skafrenningur á flestum fjallvegum um norðvestanvert landið.

Hálkublettir og él eru víða á Norðurlandi vestra en snjóþekja og skafrenningur á Öxnadalsheiði. Á Norðaustur- og Austurlandi eru flestir vegir greiðfærir en þó eru hálkublettir á Út-Héraði. Flughált er á Dettifossvegi.

Greiðfært er frá Reyðarfirði og áfram með suðausturströndinni að Öræfasveit en þar taka við hálkublettir og hálka, samkvæmt vef Vegagerðarinnar.

Veðurspáin:

Suðvestan 10-18 m/s, en 15-23 m/s um landið norðvestanvert fram á kvöld. Víða él, en léttskýjað austanlands. Hiti um frostmark. Lægir og styttir upp á morgun. Gengur í norðaustan 8-15 sunnan- og austanlands annað kvöld með snjókomu eða slyddu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert