50-60 manns leita í Hafnarfirði

„Nú ætlum við að nota dagsbirtuna til þess að leita hérna í kringum Hafnarfjarðarhöfnina og það verður leitað með bátum, gönguhópum og jafnvel drónum,“ sagði Lárus Steindór Björnsson, svæðisstjóri björgunarsveita, þegar leit var að hefjast að Birnu Brjánsdóttur í morgun. Um 50-60 manns koma að leitinni.  

Rætt er við Lárus í myndskeiðinu.

Uppfært kl. 11.42:

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur fengið aðgang að myndavélakerfi Hafnarfjarðarhafnar vegna leitarinnar að Birnu Brjánsdóttur og er lögreglan að fara yfir myndefnið.

Að sögn Lúðvíks Geirssonar hafnarstjóra dekka vélarnar allt svæðið við höfnina en Suðurbakki og Hvaleyrarbakki eru um 700 metrar. „Allar okkar vélar eru hafnarbakkamegin. Það er fjöldi myndavéla sem dekkar allt svæðið. Öll umferð sést í þeim vélum,“ segir Lúðvík.

Lúðvík segir að maður sé á vakt til miðnættis við höfnina bæði á virkum dögum og um helgar. Hann hafi ekki orðið var við neitt í tengslum við mál Birnu.

„Við vonum að þetta skýrist," segir Lúðvík. 

Leita við Urriðakotsvatn 

Einn af þeim stöðum sem leitað hefur verið á er við Urriðakotsvatn sem er á bak við verslunina IKEA.

Að sögn Þorsteins G. Gunnarssonar, upplýsingafulltrúa Slysavarnafélagsins Landsbjargar, hafa nokkrir björgunarsveitarmenn leitað við vatnið. Eru þeir að fylgja eftir einni vísbendingu sem barst. 

Einhverjir björgunarsveitarmenn hafa einnig leitað við Flatahraun. Langflestir eru þó á hafnarsvæðinu í Hafnarfirði. 

Ekki hefur enn verið ákveðið að nota þyrlu Landhelgisgæslunnar við leitina en notast var við hana í gær. 

Leitað við Ikea.
Leitað við Ikea. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert