Erfitt að endurnýja gamlar lyftur

Lyftan er rúmlega 50 ára gömul.
Lyftan er rúmlega 50 ára gömul. Ljósmynd/Aðsend

Gamlar lyftur á Landspítalanum við Hringbraut verða ekki endurnýjaðar, þrátt fyrir fréttir síðustu daga þess efnis að þær eigi það til að stöðast eða bila. Brugðist var við vandanum með því að koma fyrir nýrri lyftu utan á húsinu til að sinna alvarlega veikum sjúklingum.

Ingólfur Þórisson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Landspítala, segir að lyfturnar hafi verið settar í árið 1961 eða 1963 og séu því rúmlega 50 ára gamlar. „Það voru vandamál með þessar lyftur í einhvern tíma. Við fórum í ítarlega greiningu á því hvernig væri hægt að bæta flæðið sérstaklega á þeim sem eru mjög veikir og þurfa að flytjast á milli hjartaþræðingar, hjartagáttar á jarðhæð og upp á skurðstofur og gjörgæslu. Þá var ákveðið að byggja nýja lyftu utan á spítalanum,“ segir Ingólfur.

Landspítali við Hringbraut
Landspítali við Hringbraut mbl/ Ómar Óskarsson

Eins og greint var frá á mánudag tók lyftuferð aðfaranótt mánudags 20 mínútur í stað hefðbundinna 15 sekúndna. Lyftan stoppaði þrisvar á leiðinni en sama lyfta festist á milli hæða á jóladag. 

Frétt mbl.is: 20 mínútur í stað 15 sekúndna

Ingólfur segir að hin lyftan hafi verið byggð fyrir þá sem veikastir eru. Mikið mál sé að skipta út þessum gömlu lyftum en það sé ekki hægt að setja nýjan hurðabúnað. Hurðir séu einfaldar og inni í lyftunum er geisli sem ekki má fara fyrir því þá stoppa þær.

„Við höfum athugað að setja tvöfalda hurð á lyfturnar en þær taka pláss í báðum endum lyftunnar og þá kæmum við ekki rúmi inn í lyftuna. Þess vegna var ákveðið á sínum tíma að bæta lyftum utan á húsið.

Nýja lyftan var tekin í notkun fyrir um það bil tveimur árum og því ættu alvarlega veikir sjúklingar ekki að þurfa að ferðast í gömlu lyftunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert