Gögn send utan til greiningar

Lögreglumenn koma með skipverja af grænlenska togaranum Polar Nanoq í …
Lögreglumenn koma með skipverja af grænlenska togaranum Polar Nanoq í Héraðsdóm Hafnarfjarðar sem heimilaði tveggja vikna gæsluvarðhald yfir mönnunum. Eggert Jóhannesson

„Ég vona að með hverri klukkustundinni séum við nær því að finna Birnu. Að það safnist í þennan sarp upplýsingar sem leiði til þess að við munum finna hana,“ segir Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn sem stýrir rannsókninni á hvarfi Birnu Brjánsdóttur, sem ekkert hefur spurst til frá því aðfaranótt laugardags.

Grímur segir rökstuddan grun vera fyrir því að rauða Kia Rio-bifreiðin sem sást á Laugaveginum á svipuðum tíma og síðast sást til Birnu, sé sú sama og lögregla tók til rannsóknar í gær.

„Frá upphafi höfum við verið að tala um þennan rauða Kia Rio sem sést á mjög svipuðum tíma og síðast sést til Birnu í myndavélum. Þannig að ein kenningin hefur verið sú að hún hafi farið upp í þennan bíl og að það kunni að vera sami bíll og menn sem við höfum nú handtekið leigðu. Þetta er myndin sem við erum að vinna eftir.“

Geta enn ekki staðfest að Birna hafi farið upp í bílinn

Púslið sem vantar í myndina er hins vegar Birna sjálf og greiningarvinna felst nú í því að reyna að sjá bílinn og Birnu á myndböndum sem lögregla hefur fengið afhent. „Við erum að reyna að kortleggja för bílsins og það er greining á þeim gögnum sem við erum að horfa til. Púslið sem enn vantar er að við þurfum að staðfesta að það sé raunverulega rétt að Birna hafi farið upp í þennan bíl. Það höfum við enn ekki getað gert.“ Grímur segir lögreglu hins vegar vilja benda á að sími Birnu ferðist suður í Hafnarfjörð og að umræddur bílaleigubíll hafi verið í Hafnarfirði.  

Verið er að rannsaka síma mannanna og segir Grímur búið að kanna staðsetningu þeirra. „Það er hluti af þeirri rannsókn sem er í gangi,“ segir hann en kveðst ekki geta tjáð sig um það hvort farsímagögn gefi til kynna að símar mannanna hafi verið í nágrenni við síma Birnu.

„Ég vona að með hverri klukkustundinni séum við nær því …
„Ég vona að með hverri klukkustundinni séum við nær því að finna Birnu. Að það safnist í þennan sarp upplýsingar sem leiði til þess að við munum finna hana,“ segir Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn sem stýrir rannsókninni á hvarfi Birnu Brjánsdóttur. mbl.is/Árni Sæberg

Leita aðstoðar erlendis

Grímur tjáir sig sömuleiðis ekki um það hvort lögregla hafi undir höndum myndband úr eftirlitsmyndavél sem sýni menn þrífa rauðan Kia Rio í Hafnarfirði. „Það er heilmikið af myndbandsupptökum sem við erum að skoða og þetta gæti verið hluti af púslinu varðandi ferðir bílsins.“

Grímur staðfestir hins vegar að lögregla hafi sent gögn til greiningar erlendis í tengslum við rannsóknina. Hann getur þó ekki tjáð sig um hvers eðlis þau gögn séu, né heldur hvaðan þau komi. Við rannsókn um borð í grænlenska togaranum Polar Nanoq var hald lagt á raftæki og önnur gögn sem lögregla telur geta tengst hvarfi Birnu. Grímur segir engin þeirra hafa verið send utan.

Yfirheyrslur enn í gangi

Yfirheyrslum hefur verið haldið áfram í dag yfir mönnunum tveimur sem úrskurðaðir voru í tveggja vikna gæsluvarðhald vegna gruns um að þeir tengist hvarfi Birnu. „Við erum búin að vera að tala við þá í dag og erum að tala við að minnsta kosti annan þeirra í augnablikinu,“ segir Grímur og kveður yfirheyrslum verða haldið áfram í fyrramálið.

Hann segir þau gögn sem lögregla hafi í málinu vera borin undir sakborningana. „Það er hluti af yfirheyrslunum, að fara yfir gögn.“

Skipverjar samstarfsfúsir

Spurður hvort hann telji mennina hafa haft samráð sín á milli segir Grímur það ekki ólíklegt. „Mér finnst blasa við að menn sem eru saman í langan tíma og vita að þeir eru á leið í land eins og var í þessu tilfelli, það er ákveðin hætta á að þeir samræmi framburð.“

Skipstjóri, útgerð og aðrir skipverjar um borð í Polar Nanoq hafa hins vegar verið samstarfsfúsir að sögn Gríms.

Lögreglu hefur borist mikið af ábendingum í tengslum við hvarf Birnu í gegnum netið og á Facebook. „Það er raunverulega aðdáunarvert hvað fólk er að senda okkur,“ segir Grímur og kveður lögreglu fá send bæði gögn og hugmyndir. „Það er mjög ánægjulegt.“ Enginn hefur þó enn sett sig í samband við lögreglu vegna myndbandsins sem birt var á mánudag með síðustu upplýsingum um ferðir Birnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert