Fyrsta skrefið en ekki lokaskrefið

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það var gagnlegt að fá þessa yfirferð á skýrslunni á fundinum þótt ég hefði auðvitað kosið að fyrrverandi fjármálaráðherra hefði mætt á hann, eins og var bókað á fundi nefndarinnar. Hins vegar liggur fyrir að miklu meiri vinna þarf að fara fram í þessum efnum,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, í samtali við mbl.is en efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis fundaði í morgun að beiðni hennar um skýrslu sem unnin var af starfshópi á vegum fjármálaráðuneytisins um eignir Íslendinga á aflandssvæðum.

„Meðal annars þarf að greina betur kerfið hér á landi fyrir hrun og hvað vantaði þar upp á. Þar kom ýmislegt áhugavert í ljós í raun og veru. Við erum greinilega nokkuð að baki nágrannaþjóðum okkar, bæði í rannsóknum á þessu sviði sem og varðandi lagarammann. Síðan er mjög mikilvægt hvað gerist í framtíðinni. Ég tel að það sem þurfi meðal annars að taka til skoðunar sé hvað gerist þegar losað verður um höftin. Hvernig verður eftirliti með fjármagnsstreymi háttað?“ segir Katrín enn fremur.

Fram komi í skýrslu starfshópsins að aðrar aðferðir séu í raun og veru notaðar til þess að koma fjármunum undan skatti miðað við þá skattalöggjöf sem við höfum í dag en voru notaðar fyrir hrun. Það þurfi að rýna betur. „Það er mitt mat að efnahags- og viðskiptanefnd eigi að hafa frumkvæði í þessum málum og ræða við þá sem að þeim koma, eins og Hagstofuna og Seðlabankann, þannig að þetta mál verði sett í forgang að minnsta kosti á vettvangi þingsins.“

Mikilvægt að læra af nágrannaríkjunum

Mikilvægt sé að tryggja að það sem áður hafi gerst í þessum efnum gerist ekki aftur en ekki síður sé mikilvægt að hliðstætt gerist eftir öðrum leiðum. „Þeir sem eru að koma peningum undan gera það í krafti síns auðs og hafa fyrir vikið mikil tækifæri til þess að finna leiðir á meðan stjórnvöld eru kannski ekki með nægan mannskap eða fjármagn í þessum málum. En fjárfesting í þessu skilar sér yfirleitt margfalt til baka.“

Katrín segir nauðsynlegt fyrir Íslendinga að læra af nágrannaríkjunum hvað þetta snerti. Þar hafi meðal annars verið lögð áhersla á svonefnda þunna eiginfjármögnun og að meta umfang hennar. Það hafi komið fram á fundinum en skýrslan nái ekki til hennar. Þar er vísað til þess þegar fyrirtæki taka lán hjá erlendum móðurfélögum til þess að draga úr skattbyrði hér á landi. Enn fremur þurfi að verja auknum fjármunum í eftirlit í þessum málum, sem og að beita sér í meira mæli á alþjóðavettvangi í samstarfi við önnur ríki.

Skýrslan sé að hennar mati enginn lokapunktur í þessu máli enda veki hún upp margar spurningar. Þvert á móti ætti hún aðeins að vera fyrsta skrefið í því að taka þessi mál til gagngerrar skoðunar með það fyrir augum að bæta löggjöf hér á landi og koma í veg fyrir að reynt sé að koma fjámunum undan skatti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka