Sáu númerið og lögðu hald á bílinn

Birna Brjánsdóttir sást síðast á eftirlitsmyndavél á Laugavegi að morgni …
Birna Brjánsdóttir sást síðast á eftirlitsmyndavél á Laugavegi að morgni laugardagsins 14. janúar. Á sama tíma sást rauður bíll á veginum. Talið er að þetta sé sami bíllinn og skipverjar af Polar Nanoq tóku á leigu og óku að Hafnarfjarðarhöfn nokkru síðar. Myndir/Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu

Sjá mátti bílnúmer rauða bílsins við Hafnarfjarðarhöfn á laugardagsmorgun á upptökum úr eftirlitsmyndavélum. Í kjölfarið lagði lögreglan hald á bílinn, sem er af gerðinni Kia Rio, í Kópavogi. Hann er í eigu Bílaleigu Akureyrar.

Lögreglan gengur nú út frá því að bíllinn sem sást á eftirlitsmyndavélum við Laugaveg aðfaranótt laugardags, á nær sama tíma og Birna Brjánsdóttir sást síðast, sé sá hinn sami.

Tveir skipverjar af togaranum Polar Nanoq sáust koma út úr bílnum við höfnina kl. 6.10 að morgni laugardags, um 20 mínútum eftir að síðustu merki frá farsíma Birnu voru send í fjarskiptamastur við Flatahraun í Hafnarfirði. Lögregluna grunar að Birna hafi á einhverjum tímapunkti verið í þessum bíl. Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn vill ekki upplýsa á þessari stundu hvað fannst í bílnum eða við rannsóknir á ferðum hans sem styðji þá kenningu lögreglunnar. „Ég get ekki farið nánar út í það.“

Talin hafa farið upp í bílinn á Laugavegi

Einar Guðberg Jónsson lögreglufulltrúi segir í samtali við mbl.is að unnið sé nú út frá þeirri kenningu að Birna hafi farið upp í bíl mannanna á Laugavegi. Enn sem komið er sé það aðeins „upplýst ágiskun“, út frá upptökum úr eftirlitsmyndavélum. Verið er að kanna hvort  hún hafi átt í einhverjum samskiptum við skipverjana áður en hún fór upp í bílinn.

Ekkert hefur spurst til Birnu í rúmlega sex sólarhringa, í um 150 klukkustundir.

Ákveðið hefur verið að tvímenningarnir, sem voru úrskurðaðir í tveggja vikna gæsluvarðhald í gær, verði yfirheyrðir áfram í dag. 

Grímur segir að sýni, m.a. úr bílnum, hafi verið send til útlanda til frekari greiningar. Niðurstaðna úr þeim rannsóknum sé að vænta á næstu dögum. Einar Guðberg Jónsson lögreglufulltrúi staðfesti við fréttastofu RÚV í morgun að lífsýni væru meðal þeirra gagna.

Lögðu hald á farsíma mannanna

Meðal gagna sem hald var lagt á um borð í Polar Nanoq í fyrrinótt eru farsímar í eigu tvímenninganna. Lögreglan mun í dag halda áfram að greina farsímagögn sem hún hefur fengið aðgang að í þágu rannsóknarinnar, m.a. að renna saman upplýsingum um ferðir merkja frá símum á sömu leið og Birna er talin hafa farið um, þ.e. frá Laugavegi, Sæbraut og loks til Hafnarfjarðar. Þar var slökkt handvirkt á síma hennar, rétt fyrir kl. 6. Meðal annars er verið að rekja slóð síma tvímenninganna í þessum tilgangi. Niðurstaða hefur ekki enn fengist.

 Grímur segir að niðurstöður úr þessari skoðun komi jafnt og þétt. Farsímagögn eru líkt og upptökur úr eftirlitsmyndavélum meðal þeirra gagna sem haldið verður áfram að vinna með.

- Vitið þið hvar Birna er?

„Nei,“ segir Grímur.

Einar Guðberg staðfestir að mennirnir séu grunaðir um gríðarlega alvarlegt brot.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert