Engar nýjar upplýsingar sem hægt er að byggja leitina á

Mikill samhugur er meðal björgunarsveitarfólks um að veita aðstoð við …
Mikill samhugur er meðal björgunarsveitarfólks um að veita aðstoð við að leita að Birnu Brjánsdóttur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Leit er að hefjast að Birnu Brjánsdóttur en leitarsvæðið er enn sem fyrr nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Leitin í gær skilaði engum árangri og engar nýjar vísbendingar hafa komið fram sem geta veitt aðstoð við leitina, að sögn Ásgeirs Þórs Ásgeirssonar yfirlögregluþjóns.

Lárus Steindór Björnsson, sem situr í svæðisstjórn björgunarsveita, segir að von sé á svipuðum fjölda björgunarsveitarfólks til að taka þátt í leitinni og í gær eða um fimm hundruð manns. Mikill baráttuhugur er í björgunarsveitarfólki sem vill gera allt til þess að leysa málið, hvarf Birnu aðfaranótt laugardags fyrir rúmri viku. 

Björgunarsveitarfólk er byrjað að tínast í hús og er verið að úthluta fólki verkefnum, segir Ásgeir Þór, en haldið verður áfram frá því sem horfið var frá í gærkvöldi. 

Að sögn Ásgeirs hefur ekkert komið fram frá því í gær sem getur hjálpað við leitina og því leitarsvæðið áfram víðfeðmt, nánast allt suðvesturhorn landsins. Svæðin eru álitin mismikilvæg og hefur verkefnum verið forgangsraðað í samræmi við það. 

„Við komumst yfir ótrúlega mikið í gær en við þurfum samt að leita meira. Þannig að við höldum áfram,“ segir Ásgeir Þór í samtali við mbl.is. Verið sé að fara yfir ferla og skoða hvaða svæðum er lokið og hvað þurfi að gera betur. 

Lárus Steindór segir að það viðri vel til leitar, hægur vindur og við frostmark. Björgunarsveitarfólk hefur verið boðað á stöðufund klukkan níu og í kjölfarið hefst vinnan eins og í gærmorgun, segir Lárus Steindór. 

Mikið og gott samstarf hefur verið á milli Slysavarnafélagsins Landsbjargar …
Mikið og gott samstarf hefur verið á milli Slysavarnafélagsins Landsbjargar og lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu við rannsókn málsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Von er á svipuðum fjölda og í gær en kannski eitthvað færra fólk sem tekur þátt í leitinni í dag sem ekki er óeðlilegt enda eiga margir langa ferð fyrir höndum á heimaslóðir. „Það verður hellingur af fólki úti að leita í dag,“ segir Lárus Steindór.

Haldið verður áfram með þau svæði sem ekki náðist að ljúka við í gær en það er allt í kringum höfuðborgarsvæðið. 

Hann segir að það sé alltaf vont að gefa ekki lokað máli en allir hafi lagt sig 100% fram í gær. Hvort heldur sem það voru björgunarsveitarfólk, slysavarnarkonur eða lögregla. Lárus segir að í þessu máli hafi verið mikið og gott samstarf við lögregluna en Birnu hefur verið leitað í viku án árangurs. 

Tveir eru í gæsluvarðhaldi á Litla-Hrauni en þeir eru taldir tengjast hvarfi Birnu. Þeir hafa hins vegar ekki játað aðild að hvarfinu í yfirheyrslum. Hlé var gert á yfirheyrslum yfir þeim um helgina, að sögn Gríms Grímssonar yfirlögregluþjóns í gærkvöldi. 

Ökumaður hvíta bílsins er beðinn um að hafa samband við …
Ökumaður hvíta bílsins er beðinn um að hafa samband við lögreglu.
Kia Rio-bifreiðin sem skipverjarnir voru með á leigu.
Kia Rio-bifreiðin sem skipverjarnir voru með á leigu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert