Flugdýrin verða ekki til á einum degi

Fæðing. Bláa flugdýrið horfir á tvö verða til.
Fæðing. Bláa flugdýrið horfir á tvö verða til. mbl.is//Svanhildur Eiríksdóttir

Morgunblaðið gengur í endurnýjun lífdaga í höndum Hildar Harðardóttur listhönnuðar sem býr til litskrúðug flugdýr í öllum stærðum og gerðum. Þau eiga nú hug hennar allan en Hildur hefur fengist við ýmis listform og rekið gallerí.

Á sýningu Handverks og hönnunar í Ráðhúsi Reykjavíkur í nóvember sl. fangaði sýningarbás Hildar Harðardóttur, HH Hildur H Listhönnun, athyglina enda litavalið og úrvinnslan slík. Básinn var fullur af litríkum flugdýrum eins og Hildur kallar þessar vængjuðu fígúrur sínar. Engin tvö verk eru eins og stundum kemur fyrir að kaupendur óski eftir ákveðinni skírskotun í fígúrunni þegar um gjöf er að ræða. Það dýr sem hreif blaðamann og endaði heima í stofu er íklætt landakorti með framandi löndum sem enn á eftir að heimsækja. Þangað til má ferðast í huganum með flugdýrinu.

Hildur menntaði sig í leikskólafræðum og hefur unnið í leikskólum undanfarna tvo áratugi. Þar hefur kunnátta hennar aldeilis komið að góðum notum í listsköpun leikskólabarnanna. Eitt þessara verka hangir nú á listaverkavegg á heimili Hildar í Reykjanesbæ og gefur hinum ekkert eftir. Hildur segir listsköpun sína alltaf enda í kvöld- og helgarvinnu, þó slíkt hafi ekki verið meiningin. „Þegar ég fór á pappamassanámskeið hjá Söru Vilbergsdóttur í Myndlistarskóla Kópavogs haustið 2013 þá ákvað ég að minnka við mig vinnuna til þess að hafa meiri tíma til að skapa. Það kom svo á daginn að minn tími er á kvöldin og um helgar, svo ég fór bara aftur í fulla vinnu,“ segir Hildur.

Pappamassanámskeið áhrifavaldur

Námskeiðið í Myndlistarskóla Kópavogs reyndist mikill áhrifavaldur í listsköpun Hildar því í framhaldi kviknaði hugmyndin að flugdýrunum. Áður hafði Hildur lengst af verið að mála vatnlitamyndir og búa til sjöl og hálsskraut úr þæfðri ull og silki. Nú eiga flugdýrin hins vegar hug hennar allan. Í vinnustofunni getur að líta skrautlegan og fjölbreyttan efnivið sem bíður þess að skreyta dýrin. „Ég kaupi alls kyns tölur, perlur, límbönd, rennilása og sanka að mér hlutum sem hafa þjónað sínu, svo sem korktöppum og töppum af ungbarnamat, en fólk er líka duglegt að gauka að mér ýmsum hlutum sem það telur mig geta notað í listaverkin. Ég get nefnt blúndur, eyrnalokka, hálsfestar og efnisbúta.“ Eyrnalokkarnir enda gjarnan sem skott á flugdýrinu, tölurnar verða augu og tappanir að höttum. Fæturnir eru búnir til úr vír og litríkum perlum og vængirnir eru mótaðir úr vír og silkipappír.

Morgunblaðið undirstaðan í flugdýrunum

Blaðamaður rekur augun í krumpaða dagblaðapappírsbunka á borðinu sem kemur á daginn að er aðal-efniviður flugdýranna. „Ég hef lengi verið áskrifandi að Morgunblaðinu og þegar þau hafa þjónað sínu enda þau hér í vinnustofnni minni. Ég byrja á því að krumpa blaðsíðurnar til að gera þær meðfærilegri. Síðan móta ég dýrin lið fyrir lið og nota til þess ógrynni af límbandi.“ Ysta lagið mótar Hildur af mikilli kostgæfni enda það sem á endanum verður sýnilegt á yfirborði flugdýrsins. Það getur verið skemmtileg mynd eða texti, eða skemmtilegt skraut úr efnisveitunni í vinnustofunni, límbandi eða blúndu. „Þessi verk verða ekki til á einum degi,“ segir Hildur og það er ljóst miðað við vinnuaðferð. Nú verður til eitt dýr sem mun klæðast þessu viðtali.

Viðurkenningar öll árin

Hildur hefur tekið þátt í þremur síðustu sýningum Handverks og hönnunar í Ráðhúsi Reykjavíkur og Handverkshátíðinni á Hrafnagili við Akureyri sl. þrjú ár með flugdýrin sín. Öll árin hefur Hildur fengið viðurkenningu fyrir hönnun sína og sköpun á Handverkshátíðinni, hvatningarverðlaun árið 2014, gleði- og bjartsýnisverðlaun 2015 og fyrir flottasta básinn 2016. Hildur var einnig með sölusýningu á Ljósanæturhátiðinni í Reykjanesbæ í september sl. Flugdýrin er hún einnig með til sölu á þessum þremur stöðum, á Park Inn by Radison í Reykjanesbæ, í Gallerí Listfléttu á Akureyri og í safnabúð Listasafns Reykjavíkur. Sjálf rak Hildur galleríið Hringlist í Reykjanesbæ til margra ára og var aðili að Gallerí 8 í Reykjanesbæ, sem lokað var á vormánuðum 2014.

Námskeið í öllu mögulegu

Hildur hefur sótt fjölda námskeiða í gegnum árin, bæði á Íslandi og erlendis og framundan er dvöl í Burgundy-héraðinu í Frakklandi þar sem Hildur mun sitja pappamassanámskeið hjá þekktri breskri listakonu. Það verður gaman að fylgjast með hvort flugdýrin hennar taki breytingum eða hvort aðrar verur verði til eins og í kjölfar pappamassanámskeiðsins í Myndlistarskóla Kópavogs. „Ég hef eiginlega verið á námskeiðum frá því að ég man eftir mér og langar alltaf að læra eitthvað nýtt. Ég get nefnd málaranámskeið, glernámskeið, þæfingarnámskeið, smíðanám í fjölbrautaskóla, auk pappamassanámskeiðs,“ segir litskrúðuga listakonan Hildur Harðar að lokum.

Tengill: facebook.com/hildurlisthonnun
Hildur Harðardóttir á vinnustofu sinni þar sem flugdýrin og allra …
Hildur Harðardóttir á vinnustofu sinni þar sem flugdýrin og allra handa fígúrur fara á flug. mbl.is/Svanhildur Eiríksdóttir
Viðurkenning. Þessir vöktu lukku á handverkshátíðinni á Hrafnagili í fyrra.
Viðurkenning. Þessir vöktu lukku á handverkshátíðinni á Hrafnagili í fyrra.
Flugdýr í heiðurssessi undir glerkúpli í alrýminu.
Flugdýr í heiðurssessi undir glerkúpli í alrýminu.
Flugdýr Hildar eru hvert með sínu lagi.
Flugdýr Hildar eru hvert með sínu lagi.
Hreindýr. Hildur hefur prófað að búa til allskkonar fígúrur.
Hreindýr. Hildur hefur prófað að búa til allskkonar fígúrur.
Flugdýr sem hangir í lofti.
Flugdýr sem hangir í lofti.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert