Styrktur til rannsókna á mengunarefnum

Þórhallur er prófessor við Háskóla Íslands.
Þórhallur er prófessor við Háskóla Íslands. mbl.is/Sigurður Bogi

Þórhallur Ingi Halldórsson, prófessor í næringarfræði við Háskóla Íslands, og samstarfsfólk hans við Háskólann og Matís hafa hlotið rannsóknastyrk frá Evrópusambandinu upp á 70 milljónir króna (600 þúsund evrur). Verkefnið felst í að koma upp samræmdu vinnulagi við vöktun á mengunar- og aðskotaefnum í fólki í Evrópu.

Styrkurinn kemur úr Horizon 2020-áætlun Evrópusambandsins, nánar tiltekið úr heilsuhluta áætlunarinnar. Það eru 37 stofnanir auk þeirra íslensku sem taka beinan þátt í verkefninu ásamt fjölda tengdra stofnana en heildarstyrkur til verkefnisins hljóðar upp á 50 milljónir evra.

Hugmyndin er að samnýta betur innviði til rannsókna á áhrifum þessara efna á heilsu fólks. Eins og staðan er í dag er vinnulagið við vöktun á mengunar- og aðskotaefnum í fólki jafnólíkt og fjöldi ríkjanna innan Evrópusambandsins. Þetta á t.d. við um hvernig þátttakendur eru valdir til rannsókna og hvaða aðferðum er beitt við sjálfar rannsóknirnar. Þetta gerir það að verkum að mjög erfitt er að bera saman mælingar á styrk mengunarefna í lífsýnum frá einu landi til annars. 

Þórhallur Ingi segir að ekki gangi að þær nær þrjátíu þjóðir sem nú geri þessar vöktunarmælingar og rannsóknir vinni þær á mismunandi hátt og því hafi þurft að samræma aðferðirnar. Ekki þarf að fjölyrða um samfélagslegt mikilvægi rannsókna af þessum toga þar sem þær varða beint heilsufar fólks og geta dregið úr vaxandi kostnaði í heilbrigðiskerfum þjóðanna sem taka þátt í rannsókninni. „Verkefnið gefur okkur Íslendingum einnig færi á að skipuleggja okkur betur í þessum málaflokki og vonandi sinna svona mælingum og rannsóknum af meiri krafti en við höfum gert,“ segir Þórhallur Ingi.

Þórhallur Ingi segir að stofnanir á borð við Evrópsku matvælaöryggisstofnunina (EFSA) og European Chemicals Agency (ECHA) styðjist mjög við rannsóknir á áhrifum mengunar- og aðskotaefna í umhverfi fólks en þessar stofnanir sjái um áhættumat og regluverk í tengslum við notkun efna í iðnaði og matvælaframleiðslu.

Í rannsóknateymi með Þórhalli Inga eru Kristín Ólafsdóttir, dósent við læknadeild, og Hrönn Jörundsdóttir, sérfræðingur hjá Matís. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert