„Birna, þú áttir þetta ekki skilið“

Mörg hundruð sjálfboðaliðar björgunarsveitanna komu að leitinni að Birnu Brjánsdóttur …
Mörg hundruð sjálfboðaliðar björgunarsveitanna komu að leitinni að Birnu Brjánsdóttur í síðustu viku. mbl.is/Ómar Óskarsson

Björgunarsveitarmaður, sem var meðal þeirra rúmlega 700 sjálfboðaliða sem tóku þátt í leitinni að Birnu Brjánsdóttur um helgina, segist hafa grátið leitinni lauk og hann kom heim til móður sinnar.

Björgunarsveitarmaðurinn heitir Viktor Klimaszewski og starfar hjá Alcoa Fjarðaáli á Reyðarfirði. Hann skrifar um leitina og líðan sína á Facebook-síðu sinni og hefur færslan nú verið birt á vefsíðu björgunarsveitarinnar Sigurvonar í Sandgerði. Hann er einnig félagi í björgunarsveitinni Brimrúnu.

mbl.is fékk leyfi Viktors til að birta frétt úr skrifum hans.

Leitað fram í kolsvarta myrkur

Hann segist hafa komið suður til Reykjavíkur aðfararnótt laugardags til að taka þátt í allsherjarleitinni sem hófst kl. 9 þann morgun. „Falleg 20 ára gömul stúlka hafði ekki skilað sér heim í viku,“ skrifar Viktor. Hann segir að eftir tveggja daga leit í skítugu hrauninu milli Hafnarfjarðar og Grindavíkur hafi leitin skilað árangri en kl. 13 á sunnudag fann áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar Birnu látna við Selvogsvita. „Við fundum Birnu.“

Viktor segist hafa haldið áfram leit á svæðinu fram í kolsvarta myrkur. 

„Ég kom heim seint um kvöldið, og það fyrsta sem beið mín var heitt faðmlag frá mömmu,“ skrifar Viktor. „Ég grét í fanginu á henni.

„Ég grét yfir þeirri staðreynd að ég var sendur á það svæði þar sem vondur maður losaði sig endanlega við Birnu, í von um vísbendingar hvar og hvort möguleg morðvopn hafi verið til staðar.

Þetta tók á andlega sem líkamlega - þó meira andlega.

Birna sýndi okkur það, að þegar þjóðin verður fyrir áfalli, verðum við að standa saman. Við erum fjölskylda.

Birna, þú áttir þetta ekki skilið.

Þú áttir það ekki skilið að vera rænd framtíðinni.

Þú áttir ekki skilið að fá aldrei að sjá foreldra þína aftur.

Fyrirgefðu.

Mig langar hér með til þess að votta fjölskyldu þinni og vinum mína dýpstu samúð.

Í von um bjartari daga.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert